Fundargerð Aðalfundar Almannaheilla 19.05.2010  

Aðalfundur

Almannaheilla, samtaka þriðja geirans

Haldinn 19. maí 2010, kl. 14-16.30, í húsakynnum Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

1. Setning. Guðrún Agnarsdóttir, formaður, setti aðalfundinn og bauð fundarmenn og gesti velkomna.

2. Kjör fundarstjóra og fundarritara. Formaður gerði tillögu um Hildi Helgu Gísladóttur sem fundarstjóra og Jónas Guðmunds­son sem fundarritara. Var tillagan samþykkt. Hildur Helga tók við stjórn fundarins og leitaði eftir staðfestingu á að hann teldist löglegur aðalfundur þó endurskoðaðir reikningar hefðu ekki verið sendir aðildarfélögum fyrir fundinn. Var það samþykkt athugasemdalaust.

3. Skýrsla stjórnar. Guðrún Agnarsdóttir, formaður Almannaheilla, flutti skýrslu stjórnar um starf samtak­anna á liðnu starfsári. Rifjaði hún upp þau þrjú meginmarkmið sem stofnsamningur samtakanna byggði á og snertu setningu heildarlaga um félagasamtök og sjálfs­eignar­­stofnanir, breytingar á skattlagningu almannaheillasamtaka og eflingu ímyndar þeirra. Fór hún síðan yfir helstu atburði á starfsárinu.

Héldu samtökin í samvinnu við félagsráðgjafar­deild og stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands málþing um efnið: Þriðji geirinn á tímum endur­reisnar: Lýðræði, félagsauður, betra velferðarkerfi og nýsköpun þess?  Var á málþingu fjallað um nýjar rannsóknir á áhrifum efnhagskreppunnar á frjáls félagasamtök og fjallað um hvert hlutverk þriðja geirans ætti að vera í endurreisn samfélagsins eftir fall bankanna. Var málþingið fjölmennt og urðu líflegar umræður um efni þess.

Samtökin héldu einnig, í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, málstofu undir yfirskriftinni:Þriðji geirinn – Siðlegir starfshættir og ábyrgð stjórna almannaheillasamtaka. Var þar fjallað um siðlega starfshætti og setningu siðareglna, um ábyrgð stjórnenda og stjórnarmanna í almannaheilla­samtökum. Ennfremur voru kynnt drög að siðareglum fyrir Almannaheill. Var málstofan fjölsótt og urðu góðar umræður um erindin.

Þá var haldinn sérstakur umræðu- og fræðslufundur um aðgengi almannaheillasamtaka að íslenskum fjölmiðlum.

Samtökin unnu að markmiðum sínum með ýmsu móti á árinu, þ.á.m. með þátttöku í ráðherraskipaðri nefnd um heildarlöggjöf, útgáfu ályktana, dreifingu efnis í gegnum heimasíðu, starfi vinnuhóps um siðareglur og þátttöku í vinnufundum opinberra aðila.

4. Skýrsla um endurskoðaðan fjárhag samtakanna. Jónas Guðmundsson, ritari, kynnti í forföllum Kristins H. Einarssonar, gjaldkera, reikninga samtakanna frá stofnun þeirra um mitt ár 2008 og til ársloka 2009. Gerði hann grein fyrir hvernig útgjöldum hefði verið haldið í lágmarki allan þennan tíma, en helsti útgjaldaliður hefur verið rekstur vefsíðu. Öll vinna hefur verið sjálfboðin. Helstu tekjur samtakanna hafa verið árgjöld frá aðildarfélögunum. Tekjur umfram gjöld urðu 703 þús. kr. reikningstímabilinu og peningaleg eign í lok þess 672 þús. kr. Stjórnin hafði samkvæmt samþykkt síðasta aðalfundar tilnefnt Ólaf V. Sigurbergsson sem endurskoðanda samtakanna og staðfesti hann með ártun að hafa aðstoðað við gerð þeirra.

5. Umræður um skýrslur og afgreiðsla þeirra. Stuttar umræður urðu um skýrslu formanns og reikninga samtakanna. Voru reikningarnir síðan samþykktir samhljóða.

6. Kosning stjórnar og endurskoðenda. Björn B. Jónsson, formaður uppstillinganefndar, gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar. Með honum í uppstillinganefnd voru Kristín Siggeirsdóttir og Reynir Ingibjartsson. Tillaga nefnarinnar var þessi:

Formaður:                    Guðrún Agnarsdóttir

Aðrir stjórnarmenn:     Björgólfur Thorsteinsson

Einar Haraldsson

Eva Þengilsdóttir

Jónas Guðmundsson

Jónas Þórir Þórisson

Kristinn Halldór Einarsson

Varastjórn:                  Hildur Helga Gísladóttir

Júlíus Aðalsteinsson

Kristín Jónasdóttir

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Stefán Halldórsson

Sveinn Magnússon

Vilmundur Gíslason

Ekki komu fram aðrar tilnefningar. Tillaga uppstillinganefndar var samþykkt samhljóða.

7. Ákvörðun um gjaldskyldu aðildarfélaga. Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar um að aðildargjöld, eins og þau voru upphaflega ákveðin í stofnsamningi, verði áfram óbreytt. Var það samþykkt samhljóða.

8. Lagabreytingar. Engar tillögur voru fluttar um breytingar á lögum Almannaheilla, en kynnt að í vinnslu hjá stjórn væri tillaga um breytingu á ákvæðum um endurskoðun reikninga samtakanna og fresti til kynningar á reikningum.

9. Önnur mál. Ómar H. Kristmundsson, prófessor, flutti erindi um starf nefndar félagsmála­ráðherra sem kannað hefur kosti og galla þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Ómar er formaður nefndarinnar.  Hann sagði að tvö megintilefni hefðu verið fyrir skipan nefndarinnar, annars vegar tillaga Almannaheilla um að unnið yrði að slíkri athugun og hins vegar áhyggjur margra af fjárreiðum nokkurra félagasamtaka sem unnið hefðu að verkefnum fyrir opinbera aðila. Nefndin fékk Hrafn Bragason, fyrrum hæstaréttardómara, til að vinna álitsgerð um réttarumhverfi almennra félaga, sem Ómar taldi réttnefnt tímamótaverk um þessi mál. Nefndin stefndi að því að ljúka störfum með tillögum til ráðherra fyrir sumarleyfi.

Ómar sagði athyglisvert að samkvæmt skoðanakönnunum nytu félagasamtök 70-80% trausts í samfélaginu, á meðan margar aðrar stofnanir samfélagsins, s.s. Alþingi, nytu lítils trausts. Hins vegar byggju félagasamtök við mjög óvisst rekstrarlegt umhverfi. Tilviljanakennt væri hvernig almenn félög í landinu væru skráð, svo jaðraði við hreina óreiðu. Hann taldi álitamál væri  hversu langt mætti ganga í setningu heildarlaga um félagasamtök og sjálfseignar­stofnanir. Ekki mætti ganga svo langt að stjórnarskráðbundnu félagafrelsi væri hætta búin. Sumir þættir sem snerta starfsemi félagasamtaka ættu áfram heima í almennum lögum, s.s. skattalögum. Finnland hefur eitt Norðurlanda sett heildarlög um starfsemi félagasamtaka. Fyrir því væru ýmis rök hér á landi.

Ómar kynnti að auki fyrirhugaða Miðstöð þriðja geirans, sem stefnt er að því að stofna við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hafa verið viðraðar hugmyndir um að Almannaheill eigi formlega aðild að stofnuninni. Stefnt væri að því að fyrsta verkefni þessarar miðstöðvar verði að kanna nánar áhrif af efnahagsþrengingunum á þriðja geirann.

Margir fundarmanna tóku þátt í umræðum um erindi Ómars og beindu til hans spurningum: Guðrún Agnarsdóttir, Sæmundur Runólfsson, Björgólfur Thorsteinsson, Björn Guðbrandur Jónsson, Björn B. Jónsson, Jónas Þórir Þórisson og Jónas Guðmundsson.

10. Siðareglur Almannaheilla. Eva Þengisdóttir, varaformaður Almannaheilla og formaður starfshóps um siðareglur, kynnti tillögur að nýjum siðareglum fyrir samtökin. Hafði starfs­hópurinn unnið fyrstu tillögur að þessum reglum, en eftir umræður í stjórn og meðal aðildar­félaga voru gerðar á þeim nokkrar breytingar. Endanlegar tillögur voru samþykktar samhljóða á aðalfundinum. Var því sérstaklega fagnað að samtökin hefðu nú sett sér slíkar reglur. Einstök aðildarfélög geta á grundvelli þeirra sett sér sértækari siðareglur.

Fleira var ekki gert á fundinum.

Aðalfundinn sátu:

Berglind Gunnarsdóttir (Hjartavernd)

Björgólfur Thorsteinsson (Landvernd)

Björn B. Jónsson (Ungmennafélag Íslands – UMFÍ)

Björn Guðbrandur Jónsson (Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs)

Einar Haraldsson (UMFÍ)

Eva Þengilsdóttir (Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra)

Guðrún Agnarsdóttir (Krabbameinsfélag Íslands)

Hildur Helga Gísladóttir (Kvenréttindafélag Íslands)

Jónas Guðmundsson (Neytendasamtökin)

Jónas Þórir Þórisson (Hjálparstarf kirkjunnar)

Júlíus Aðalsteinsson (Bandalag íslenskra skáta)

Kristinn Halldór Einarsson (Blindrafélagið – samtök blindra og sjónskertra á Íslandi)

Magnea Árnadóttir (CP-félagið)

Ómar H. Kristmundsson (HÍ)

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir (Heimili og skóli)

Sæmundur Runólfsson (UMFÍ)

Vilmundur Gíslason (Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra)

Skildu eftir svar