Þann 1. nóvember sl. urðu merkileg þáttaskil í þróun starfsumhverfis samtaka sem vinna að almannaheill á Íslandi. Þá gengu í gildu ný lög um félög til almannaheilla og jafnframt nýjar og að mörgu leyti gjörbreyttar reglur um skattgreiðslur þessara samtaka og skattalega hvata til að fyrirtæki og einstaklingar styði slíka almannaheillastarfsemi í ríkari mæli en áður.
Vonir standa til að hvoru tveggja lögin muni hafa veruleg áhrif til góðs á starfsemi almannaheillasamtaka, lögin um félög til almannaheilla með betri skilgreiningu á rekstrarformi félaga sem falla undir lögin, sem verði til að auka tiltrú og traust á þessum samtökum og geri þau betur fær um að sinna mikilvægum samfélagslegum verkefnum.
Skattabreytingarnar ættu síðan að styrkja fjárhagslegar stoðir undir starfsemi margra almannaheillasamtaka, efla fjárhag þeirra og gera þeim betur en áður kleift að glíma við verkefni sín með áhrifaríkum hætti.
Það veldur hins vegar vonbrigðum að enn liggja ekki fyrir upplýsingar um tæknilegar útfærslur á þessum lagabreytingum. Hvorki reglurgerðir né leiðbeiningar ráðuneyta og stofnana varðandi málið hafa verið birt. Ekki er á meðan hægt fyrir samtök að skrá sig í almannaheillafélagaskrá eða almannaheillaskrá. Samtökin vita því ekki að hve miklu leyti þau geta nýtt sér kosti þessara nýju laga á þessu ári. Það er óásættanlegt ástand. Vonandi verður ekki langs að bíða að þessar útfærslur verði kynntar.
Almannaheill munu áfram ganga eftir að þessar útfærslur verði kláraðar og kynntar fyrir þeim sem eiga að njóta nýju breytinganna.