Aðalfundur Almannaheilla 2016

Aðalfundur Almannaheilla

 1. maí 2016, kl. 16-18 í húsnæði Krabbameinsfélagsins

 

Fundargerð

 

Formaður Ketill Berg Magnússon setti fundinn og gerði tillögu að fundarstjóra Helga Gunnarssyni sem var og samþykkt. Fundarstjóri gerði tillögu að fundarritara Þóru Þórarinsdóttur sem var og samþykkt.  Fundarstjóri gekk til dagskrár samkvæmt lögum félagsins:

 

Dagskrá

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

– lauk með þeim hætti er þegar hefur komið fram. Aðilar á fundinum kynntu sig að beiðni fundarstjóra.

 

 1. Ávarp: Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Í máli hans kom m. a. fram að starfsemi þriðja geirans væri afar mikilvæg í samfélaginu og víða lægjur rætur þeirrar starfsemi og áhrifanna gætti víða í samfélaginu. Hann ræddi mikilvægi löggjafar og stuðning sinn við frumvarp til laga félagasamtök til almannaheilla. Einnig benti hann á breytingar sem gerðar voru á skattalögum og tóku gildi um sl. áramót þar sem erfðarfjárskattur af erðafé til almannaheilla samtaka var felldur niður.  Að lokum ítrekaði hann góðar óskir til Almannaheilla.

 

 1. Staðfesting á nýjum aðildarfélögum

Ketill Berg Magnússon, formaður, kynni og bar upp tillögu stjórnar – samþykkt einróma. Aðildarfélög sem samþykkt eru 5: Blátt áfram, Fræ fræðsla og forvarnir, Norræna félagið, Móðurmál og Félag lesblindra.

 

 1. Skýrsla stjórnar um nýliðið starfsár og starfið framundan

var lögð fram og flutt af formanni Almannaheilla Katli Berg Magnússyni:

 

Skýrsla stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, fyrir starfsárið júní 2015 til maí 2016

Almannaheill, samtök þriðja geirans, voru stofnuð 26. Júní 2008 eftir talsvert undirbúningsstarf og hafa því starfað í átta ár. Stofnaðilar voru tólf félög og sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheill og markmiðið að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum.

Fleiri félög hafa bæst í hópinn og fyrir aðalfund samtakanna 26. maí 2016 voru eftirtalin félög og sjálfseignarstofnanir aðilar að Almannaheillum:

 1. ADHD samtökin
 2. Bandalag íslenskra skáta
 3. Barnaheill – Save the chidren á Íslandi
 4. Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi
 5. Blátt áfram
 6. Einstök börn
 7. FRÆ Fræðsla og forvarnir
 8. Geðhjálp
 9. Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs
 10. Heimili og skóli – landssamtök foreldra
 11. Hjartavernd
 12. Hjálparstarf kirkjunnar
 13. Krabbameinsfélag Íslands
 14. Kvenfélagasamband íslands
 15. Kvenréttindafélag íslands
 16. Landssamband eldri borgara
 17. Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands
 18. Landssamtökin Þroskahjálp
 19. Neytendasamtökin
 20. Norræna félagið
 21. Móðurmál – samtök um tvítyngi
 22. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ)
 23. Samtök sparifjáreigenda
 24. Skógræktarfélag Íslands
 25. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna
 26. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
 27. Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum
 28. Ungmennafélag Íslands
 29. Vinir Vatnajökuls
 30. Öryrkjabandalag Íslands

 

Stjórn Almannaheilla 2015-2016

Aðalfundur Almannaheilla 2015 var haldin í húsi Krabbameinsfélags Íslands 1. júní 2015. Á fundinum var kosin stjórn samkvæmt lögum samtakanna. Eftirtaldir skipuðu stjórn og varastjórn Almannaheilla eftir aðalfundinn:

Aðalstjórn:

 1. Haukur Ingibergsson                          Landssamband eldri borgara
 2. Jón Pálsson                                              Ungmennafélags Íslands
 3. Einar Bergmundur Arnbjörnsson                  Landvernd
 4. Jónas Guðmundsson                          Neytendasamtökin
 5. Ketill B. Magnússon                            Heimili og skóli
 6. Steinunn Hrafnsdóttir                       Fræðasetur þriðja geirans
 7. Ragnheiður Haraldsdóttir               Krabbameinsfélagið

 

Varastjórn:

 1. Arnþór Jónsson                                     SÁÁ
 2. Bylgja Valtýsdóttir                               Hjartarvernd
 3. Erna Arngrímsdóttir                           Öryrkjabandalagið
 4. Hildur Helga Gísladóttir                   Kvenfélagasamband Íslands
 5. Þóra Þórarinsdóttir                            Umhyggja
 6. Þórarinn Þórhallsson                         Blindrafélagið
 7. Þröstur Emilsson                                  AD HD samtökin

 

Ketill Berg Magnúson var kjörinn formaður stjórnarinnar, en samkvæmt lögum samtakanna skipar hún að öðru leyti sjálf með sér verkum. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund var ákveðið að Ragnheiður Haraldsdóttir gegndi störfum varaformanns, Jónas Guðmundsson störfum gjaldkera og Haukur Ingibergsson störfum ritara.

Haldið var þeirri venju að boða bæði aðalstjórn og varastjórn á alla stjórnarfundi. Stjórnin hélt ellefu bókaða fundi á árinu.

 

Verkefnahópar stjórnar

Öll starfsemi Almannaheilla er unnin í sjálfboðavinnu. Til þess að skipuleggja starfið kom stjórnin saman í ágúst á vinnufundi, setti niður verkefnaáherslur og skipti með sér verkum. Ákveðið var að vinna í þremur verkefnahópum þar sem einn hópur einbeitti sér að fjölgum aðildarfélaga, annar hópur vann að sýnileika og viðburðum og þriðji hópurinn skyldi vinna frumvarpi að lögum um almannaheillasamtök fylgi. Stjórnarfólk vann að einstökum verkefnum og gerð var grein fyrir verkefnastöðunni á stjórnarfundum.

 

Fjölgun aðildarfélaga

Á árinu var unnið að kynningu á starfi Almannaheilla hjá nokkrum félagasamtökum sem vinna að almannaheill í þeim tilgangi að fjölga aðildarfélögum. Þetta er mikilvægt verkefni og nauðsynlegt að halda því áfram á komandi starfsári. Sjö félög hafa sótt um aðild að Almannaheillum á starfsárinu og hefur stjórn kannað hvort þau uppfylli þær kröfur sem settar eru fram í lögum Almannaheilla. Stjórnin hefur samþykkt umsóknirnar fjögurra félaga fyrir sitt leyti, Blátt áfram, Fræ – fræðsla og forvarnir, Móðurmál – félag um tvítyngi og Norræna félagið. Það bíður aðalfundar að staðfesta formlega inntöku þessara félaga.

Viðræður eru í gangi við nokkur fleiri félagasamtök um aðild. Mikilvægt er að fjölga aðildarfélögum til að efla Almannaheill enn meira en orðið er og gera þeim kleift að beita sér enn betur fyrir hagsmunum þriðja geirans.

 

Kynningarstarf Almannaheilla

Unnið var að kynningu á starfi Almannaheilla – samtaka þriðja geirans á árinu. Haldið er úti vefsíðu samtakanna, Facebook síða samtakana er virk og hefur 476 fylgjendur og sent er út rafrænt fréttabréf um starfsemina á póstlista sem telur 256 manns.

 

Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla

Viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, setti á dagskrá Alþingis í maí 2016 fram frumvarp um almannaheillasamtök sem unnið hafði verið af nefnd á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins undir forystu Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi formanns Almannaheilla. Stjórn Almannaheilla hafði áður farið yfir drögin og sent ráðuneytinu nokkrar athugasemdir. Stjórnin telur að með frumvarpinu sé stigið stórt skref til viðurkenningar á frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum sem vinna að almannaheillum. Hún telur að vandað hafi verið til verka við samningu frumvarpsins, og tekur í meginatriðum undir efni þess.

Von stjórnar Almannaheilla er að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi sem stjórnarfrumvarp. Umrætt málefni hefur verið eitt helsta baráttumál Almannaheilla frá upphafi og lýsa samtökin sérstakri ánægju með þennan mikilvæga áfanga. Almannaheill mun fylgja málinu áfram eftir af fullum þunga.

Slík löggjöf skiptir þriðja geirann allan afar miklu máli þegar til framtíðar er litið. Lagaleg umgjörð félagasamtaka til almannaheilla hér á landi er vanþróuð í samanburði við helstu viðmiðunarlönd okkar.

 

Norrænt samstarf

Kannaðir voru kostir þess að eiga samstarf við sambærileg félög á Norðurlöndum. Formaður Almannaheilla sótti vinnufund nokkurra norrænna félaga í júní 2015. Í ljós kom að þessi félög einbeita sér að félags- og heilbrigðisþjónustu og eru lítið með sjálfboðastarf. Þeirra fókus er því töluvert þrengri en fókus Almannaheilla. Í ljósi þess ákvað stjórn Almannaheilla að bjóða Samtökum fyrirtækja í velferðaþjónustu að hafa samband við þessi norrænu félög. Almannaheill mun fylgjast með þessu norrænu samstarfi en tekur ekki þátt í þeim með beinum hætti. Samstarfsaðilar á hinum Norðurlöndunum eru:

Fundur fólksins

Stjórn Almannaheilla hefur í nokkur ár rætt um möguleika þess að koma á árlega opnum fundi almennings, opinbera geirans, einkageirans og þriðja geirans (almannaheillasamtaka) í líkingu við það sem tíðkast hefur um árabil á hinum Norðurlöndunum. Slíkir fundir eru áhugaverðar útfærslur á lýðræðislegu samstarfi þessara ólíku aðila.

 

Árið 2015 hafði Norræna húsið í Reykjavík frumkvæði að því að boða til samstarfs um slíkan fund við Norræna húsið 11.-13 júní. Almannaheill var formlegur samstarfsaðili Norræna hússins, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila við undirbúning og framkvæmd þessa viðburðar.

Fundur fólksins 2015 var sannkölluð lýðræðishátíð þar sem almenningur, stjórnmálafólk og félagasamtök komu saman til að ræða hvernig samfélag við viljum. Fundurinn gekk mjög vel. Alls voru skipulagðir yfir 100 viðburðir á þremur dögum af fjölmörgum félagasamtökum. Að fundinum loknum boðaði Norræna húsið þátttakendur á fund og sagðist gjarnan vilja styðja við Fund fólksins að ári, en það myndi ekki taka að sér utanumhaldið. Almannaheill tók að sér að leiða undirbúningshóp um Fund Fólksins 2016. Formaður Almannaheilla fór fyrir þeim hópi sem fékk það hlutverk að tryggja fjármögnun og semja við samstarfsaðila um framkvæmd hátíðarinnar.

 

Ákveðið hefur verið að Fundur fólksins 2016 verði haldinn við Norræna húsið 2.-3. September 2016. Velferðaráðherra, Eygló Harðardóttir, hefur tryggt styrk til verkefnisins frá ríkisstjórninni uppá kr. 4 m.kr. og Reykjavíkurborg hefur styrkt það um 2 m.kr. Ráðinn hefur verið verkefnastjóri til að sjá um framkvæmdina og sitja formaður og gjaldkeri Almannaheilla í stýrihópi verkefnisins ásamt forstöðumanni Norræna hússins. Undirbúningurinn er í fullum gangi og er nú verið að hvetja félagasamtök til að skrá sig til leiks auk þess sem tryggja þarf meira fjármagn til verkefnisins.

 

Málþing um eflingu frjálsra félagasamtaka

Almannaheill stóð fyrir sérstöku málþingi á Fundi fólksins, föstudaginn 12. Júní í aðalsal Norræna hússins undir yfirskriftinni „Eflum frjáls félagssamtök“. Þar var aðalræðumaðurinn Sir Stephen Bubb, framkvæmdastjóri bresku samtakanna ACEVO (Association of Chief Executives of Voluntary Organisations). Aðrir ræðumenn voru Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og Ketill B. Magnússon, formaður Almannaheilla. Þátttakan var góð og mikilvægt innlegg í umræðuna um íslensk almannaheillasamtök.

Morgunfundur um lagasetningu um almannaheilasamtök

Almannaheill boðaði til málþings um fyrirhugað lagafrumvarp um almannaheillafélög þann 18. nóvember 2015 á Grand Hóteli. Málþingið var vel sótt og þótti takast vel. Til máls tóku á fundinum:

Ketill Berg Magnússon,formaður Almannaheilla, sem setti fundinn, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp. Hrafn Bragason,fyrrverandi hæstaréttardómari og einn höfundur frumvarpsins sagði frá undirbúningi löggjafarinnar. Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Blindrafélagsins og varaformaður ÖBÍ lýsti sinni sýn á frumvarpið. Fundarstjóri var Ólafur Proppé, fyrrvarandi formaður Almannaheilla. Lokaorð og samantekt flutti Ragnheiður Haraldsdóttir, varaformaður Almannaheilla.

 

Mikilvægar breytingar á skattalögum

Almannaheill fagnaði breyttum skattalögum sem samþykktar voru á Alþingi 19. desember 2015. Samtökin hafa lengi barist fyrir slíkum breytingum. Nú geta fyrirtæki styrkt almannaheillasamtök um allt að 0,75% af heildarveltu sinni og fengið þá upphæð frádregna frá tekjuskatti. Einnig hefur erfðafjárskattur af gjöfum til almannaheillasamtaka verið felldur niður. Almannaheill mun halda áfram að berjast fyrir bættu skattaumhverfi almannaheillafélaga og má þar nefna skattaafslátt einstaklinga sem styrkja almannaheillasamtök og einnig bætt virðisaukaskattsumhverfi fyrir almannaheillasamtök.

 

Hádegisfundur um fjármögnun og fjáraflanir félagasamtaka

Almannaheill hélt hádegisfund um fjármögnun og fjáraflanir almannaheillafélaga þann 20. maí 2016 í Norræna húsinu. Frummælandi á fundinum var Sir Stuart Etherington, framkvæmdastjóri Landsamtaka breskra sjálfboðasamtaka NVCO. Í erindinu fjallaði Sir Stuart um margar af þeim áskorunum sem almannaheillasamtök standa frammi fyrir þegar kemur að meðferð fjármuna og öflun fjármagns til starfseminnar. Miklar og góðar umræður sköpuðust í kjölfar erindis Sir Stuarts og alveg ljóst að Almannaheill mun áfram stuðla að umræðu um fagmennsku í fjármálum almannaheillasamtaka.

 

Staða Almannaheilla

Undanfarið ár hefur verið mikilvægt í starfsemi Almannaheilla. Samtökin hafa stigið mikilvæg skref í að skerpa enn frekar á tilgangi sínum sem samstarfsvettvangur almannaheillafélaga á Íslandi.

Þó eru enn stórar áskoranir framundan og við eigum langt í land á mörgum sviðum þriðja geirans á Íslandi.

 

Sú þróun á sér stað á Íslandi eins og í nágrannalöndum okkar að félagasamtök taka að sér sífellt stærri og mikilvægari verkefni sem styðja við velferð almennings í landinu. Víða í nágrannalöndum okkar er það markviss stefna yfirvalda að færa hluta af þeirri þjónustu sem áður var í höndum ríkisins yfir til frjálsra félagasamtaka. Þetta á sér stað í heilbrigðisgeiranum, félagsmálum og jafnvel menntamálum. Á Íslandi hefur þessi þróun ekki verið mjög markviss og umræðan um hana er á köflum óljós. Oft er birtingarmynd þessarar þróunar hérlendis umræða um einkavæðingu, þ.e. að valkostirnir séu annað hvort ríkisrekstur eða rekstur í höndum fyrirtækja sem ætlað er að skila eigendum sínum hagnaði. Þessi umræða er oft sérkennileg því þar gleymist stundum þáttur rótgróinna og traustra íslenskra félagasamtaka sem ekki starfa í hagnaðarskyni og sinna nauðsynlegri þjónustu á sviði heilbrigðis, félagsmála eða öryggis. Þannig er stundum eins og þáttur þriðja geirans í þessari þróun í nágrannalöndum okkar gleymist.

 

Okkar sýn er að Almannaheill verði enn virkari vettvangur fyrir almannaheillafélög til að sinna sameiginlegum hagsmunamálum sínum. Sá almenni lagarammi um félagasamtök til almannaheilla nú liggur á borði Alþingis er í raun sáttmáli um starfsemi almannaheillasamtaka þar sem lagðar eru fram megin línur um hvaða eðlilegu skyldur og réttindi þurfa að gilda um slík félagasamtök. Er þar bæði átt við að lýðræðislegir starfhættir sé viðhafðir en einnig að faglega og á vandaðan hátt sé haldið utan um fjármál og önnur gæði sem samtökunum eru fengin.

 

Almannaheillum er alls ekki ætlað að vera málsvari einstakra aðildarfélaga heldur að tala fyrir munn sameiginlegra hagsmuna þriðja geirans. Meðal mikilvægra sameiginlegra málefna má nefna:

 

Rekstrargrundvöllur almannaheillafélaga. Áfram þarf að berjast fyrir rekstrarumhverfi sem er hvetjandi fyrir almannaheillasamtök, er þá bæði átt við skattaumhverfið sem og ýmsar úrbætur á stjórnsýslunni sem tengjast starfssemi okkar félaga.

 

Málefni sjálfboðaliða er annar slíkur þáttur, en langflest almannaheillasamtök eru borinn uppi að meira eða minna leyti af sjálfboðaliðum. Framlag þessara sjálfboðaliða er mikilvægt fyrir þá sem njóta og samfélagið í heild, en líka fyrir þá einstaklinga sem þessum störfum sinna og fá umbun fyrir störf sín í ánægjunni af að gera gagn og vaxa og eflast sem einstaklingar.

 

Faglegt starf og fræðsla þeirra sem starfa hjá almannaheillasamtökum. Almannaheill vill hvetja til þess að stjórnendur og starfsfólk almannaheillasamtaka geti menntað sig og þróast faglega. Slíkt er forsenda þess að almannaheillasamtök geti eflst enn frekar aðlagast að auknum kröfum um ábyrga og framsækna starfsemi. Jafnframt vill Almannaheill stuðla að umræðu meðal almannaheillasamtaka um trúverðugleika, lýðræðisleg vinnubrögð og siðferði í starfi.

 

 

Það er alveg ljóst að Almannaheill – samtök þriðja geirans mun ekki geta náð markmiðum sínum nema að til komi aukið fjármagn til rekstur félagsins. Allt starf Almannaheilla er borið uppi af sjálfboðaliðum í dag. Samtökin þurfa nauðsynlega að eflast svo að unnt verði að ráða starfsmann stjórninni til stuðnings og til þess að unnt verði að fylgja málum betur eftir og efla tengslin við aðildarfélögin. Góður starfsmaður í fullu starfi mundi efla framlag sjálfboðaliðanna. Til þess að svo megi verða þarf tvennt að koma til. Annars vegar þarf að fjölga aðildarsamtökunum og mynda þannig breiðari grunn fyrir starfssemina. Auk þess geta samtökin tekið að sér þjónustuverkefni fyrir stjórnvöld. Slík verkefni felast meðal annars í því að auðvelda samtal yfirvalda og almannaheillasamtaka um fyrrnefnd sameiginleg hagsmunamál. Eins gætu Almannaheill fylgt eftir nýjum lögum, þegar þau hafa öðlast gildi. Almannaheill eiga ekki að verða félag með umfangsmikinn rekstur fram yfir þann sem felst í að koma fram fyrir hönd sameiginlegra hagsmuna þriðja geirans, standa fyrir, í samvinnu við aðildarfélögin, umræðu um málefni þriðja geirans og efla skilning stjórnvalda og alls almennings á mikilvægu hlutverki og framlagi þriðja geirans í samfélaginu

 

Reykjavík, 26. maí  2016

 

 

 

 

 

 

Ketill Berg Magnússon, formaður Almannaheilla

 1. Skýrsla um fjárhag samtakanna og fjárhagsáætlun

Jónas Guðmundsson, gjaldkeri Almannaheilla gerir grein fyrir reikningum félagsins  Lagt var til að í ljósi lagabreytinga og að fjárhaldsár er almanaksárið að fjárhagsáætlun verði ekki lögð fram – samþykkt einróma.

 

 1. Umræður um skýrslur og afgreiðsla ársreiknings

– engar athugasemdir né fyrirspurnir – reikningar og skýrsla samþykktir einróma.

 

 1. Kosning stjórnar og skoðunarmanna

Uppstillingarnefnd skipuðu Ólafur Proppé fyrrverandi formaður Almannaheilla (formaður), Bylgja Valtýsdóttir fráfarandi stjórnarmaður og Júlíus Aðalsteinsson hjá Bandalagi íslenskra skáta. Nefndin skilaði eftirfarandi tillögum:

 

Tillögur uppstillingarnefndar um stjórn Almannaheilla 2016-2017:

 1. Ketill B. Magnússon (Heimili og skóli) – formaður til eins árs
 2. Einar Bergmundur Arnbjörnsson (Landvernd) – til tveggja ára
 3. Jón Pálson (UMFÍ) – til tveggja ára
 4. Jónas Guðmundsson (Neytendasamtökin) – til tveggja ára
 5. Þröstur Emilsson (ADHD samtökin) – til eins árs (í stað Ragnheiðar Haraldsdóttur)

 

 1. Haukur Ingibergsson (Landssambands eldri borgara) – ekki í kjöri (var kosinn til tveggja ára 2015)
 2. Steinunn Hrafnsdóttir (Fræðasetur þriðja geirans) – ekki í kjöri (var kosinn til tveggja ára 2015)

 

Tillögur uppstillingarnefndar um varastjórn Almannaheilla 2016-2017:

(öll kosin til eins árs)

 1. Ásdís Eva Hannesdóttir (Norræna félagið)
 2. Erna Arngrímsdóttir (Öryrkjabandalag Íslands)
 3. Erna reynisdóttir (Barnaheill)
 4. Hildur Helga Gísladóttir (Kvenfélagasamband Íslands)
 5. Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir (Krabbameinsfélags Íslands)
 6. Þóra Þórarinsdóttir (Þroskahjálp)
 7. Þórarinn Þórhallsson (Blindrafélagið)

 

Tillögur uppstillingarnefndar um skoðunarmenn reikninga 2016-2017:

 1. Einar Haraldsson (UMFÍ)
 2. Jónas Þórir Þórisson (Hjálparstarf kirkjunnar)

 

Formaður nefndarinar lagði fram tillögurnar sem voru samþykktar einróma og án mótframboða.

Ragnheiður Haraldsdóttir, er nú víkur stjórn kvaddi sér hljóðs og þakkaði fyrir sig.  Hún var jafnframt kosin vara skoðunarmaður reikninga.

 

 1. Ákvörðun um gjaldskyldu aðildarfélaga

Jónas Guðmundsson, gjaldkeri gerir grein fyrir tillögu stjórnar um óbreytt gjald.  Samþykkt einróma.

 

 1. Lagabreytingar

Breytingartillögur stjórnar bárust félögum viku fyrir aðalfund, sem er viku of seint samkvæmt samþykktum félagsins, en þar segir í 14. gr. „Tillögur til breytingar á lögum skal senda aðildarsamtökum a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.“

 

Fundarstjóri bar upp á aðalfundinum hvort fundurinn samþykki að taka fyrir breytingatillögurnar þó þær hafi borist aðildarfélögum of seint – samþykkt einróma.

 

Breytingatillögurnar voru sendar aðildarfélögunum þann 19. Maí sl. og fylgja með þessari greinargerð í sérstökum plöggum, annars vegar skjal sem sýnir breytingarnar á núverandi samþykktum og rökstuðning fyrir þeim (Track Changes í Word) og hins vegar hreint skjal með samþykktunum eins og þær myndu líta út ef breytingarnar yrðu allar samþykktar.

 

Breytingatillögurnar eru nokkuð margar og flestar þeirra eru málfarsbætur og smávægilegar aðlaganir. Ein efnisleg breyting snýr þó á markmiðum samtakanna, en þar er bætt við fjórða lið undir sérstakar áherslur samtakanna:

 

„Fagmennska og fræðsla: Standa fyrir opinni umræðu og fræðslu til að stuðla að faglegum og ábyrgum vinnubrögðum frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.“

 

Fundarstjóri fór yfir breytingarnar í heild sinni sem og hverja fyrir sig.  Gerð var ein ábending og tillaga kom um breytingu á einu orði í 15 grein laganna 1 málsgrein að samþykktum væri breytt í lög.

Tillagan borin upp og samþykkt.

Eftir Það var hver grein borin upp og breyting yfirfarin hver og ein  – samþykkt einróma.

 

Sjá hér ný lög samtakanna:

 

Lög Almannaheilla, samtaka þriðja geirans

 

Heiti og heimili

 

 1. gr.

Almannaheill, samtök þriðja geirans, eru samstarfsvettvangur félaga og sjálfseignarstofnana á Íslandi sem vinna að almannaheill án hagnaðarsjónarmiða. Heimili þeirra og varnarþing eru í Reykjavík.

 

Markmið

 

 1. gr.

Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, er ætlað að:

 

 1. Vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignarstofnanir sem starfa í almannaþágu, vinna að sem hagfelldustu starfsumhverfi fyrir þessa aðila, styrkja ímynd og efla stöðu þeirra í samfélaginu.

 

 1. Koma fram fyrir hönd þriðja geirans gagnvart opinberum aðilum og samfélaginu, stuðla að umræðu um hagsmuna- og fræðslumál á meðal almannaheillasamtaka og á opinberum vettvangi, og þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir í þágu þriðja geirans.

 

Samtökin leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi:

 

Rekstrarumhverfi: Vinna að bættu skatta- og rekstrarumhverfi íslenskra almannaheillasamtaka, til samræmis við það sem best þekkist.

 

Lagaumhverfi: Stuðla að því að heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana á hverjum tíma, tryggi sem best réttindi þeirra, skyldur og traust rekstrarumhverfi þeirra, almenningi til heilla.

 

Fagmennska og fræðsla: Standa fyrir opinni umræðu og fræðslu til að stuðla að faglegum og ábyrgum vinnubrögðum frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.

 

Ímynd: Skýra hlutverk almannaheillasamtaka og sjálfseignarstofnana fyrir almenningi og opinberum aðilum og undirstrika gagnsemi þeirra fyrir íslenskt samfélag.

 

Félagsaðild

 

 1. gr.

Aðilar að samtökunum geta orðið frjáls félagasamtök með almennan aðgang og lýðræðislega stjórnarhætti, sem skráð eru hjá hinu opinbera og er ætlað að vinna að heill ótiltekins fjölda manna án hagnaðarsjónarmiða þeirra sem reka og stýra félaginu, einnig sjálfseignarstofnanir, sem hafa samskonar markmið. Leggja verður aðildarumsókn, ásamt samþykktum umsækjanda  og skýrslu um starfsemi hans, fyrir stjórn Almannaheilla. Stjórnin afgreiðir umsóknir samkvæmt samþykktum starfsreglum. Sama gildir um tillögur um brottreksturaðildarfélags. Brottrekstur þarf samþykki 2/3 fulltrúa á aðalfundi.

 

 

Aðalfundur

 

 1. gr

Aðalfundur Almannaheilla fer með æðsta vald og ákvörðunarrétt í málefnum samtakanna. Skal hann að jafnaði haldinn fyrir 15. júní ár hvert. Senda skal út fundarboð til aðildarfélaga með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Í aðalfundarboði skal kynna dagskrá, fundartíma og fundarstað. Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.

 

 1. gr.

Aðildarsamtökin eiga rétt á einum fulltrúa á aðalfundinn hvert. Aðildarsamtök sem greiða félagsgjöld samkvæmt efri þrepum í félagsgjaldaskrá Almannaheilla skulu eiga rétt á viðbótarfulltrúum, einum fyrir hvert þrep.

 

 1. gr.

Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi atriði:

– Kosning fundarstjóra og fundarritara.

– Ávörp gesta.

– Skýrsla stjórnar um nýliðið starfsár og starfið framundan.

– Skýrsla um fjárhag samtakanna.

– Umræður um skýrslur og afgreiðsla ársreiknings.

– Kosning stjórnar og skoðunarmanna .

– Ákvörðun um gjaldskyldu aðildarfélaga.

– Lagabreytingar.

– Önnur mál.

 

 1. gr.

Stjórnin skal kalla til auka aðalfundar, annað hvort að eigin frumkvæði eða sé þess óskað af minnst ¼ stofnana og félaga að samtökunum. Boðað skal skriflega til fundarins með minnst fjögurra vikna fyrirvara og halda hann svo fljótt sem auðið er. Í fundarboði skal getið hvert sé tilefni fundarins. Auka aðalfundur skal hafa sama vald og venjulegur aðalfundur.

 

Kjörgengi og kosningar

 

 1. gr.

Stjórn samtakanna skipa sjö einstaklingar. Formaður skal kosinn sérstaklega og til eins árs í senn. Einnig skal kjósa þrjá stjórnarmenn til tveggja ára setu og allt að þrjá til eins árs, ef þörf krefur. Kjósa skal sjö einstaklinga í varastjórn til eins árs í senn. Ennfremur skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs. Kosningar fara fram á aðalfundi.

 

 1. gr.

Stjórn samtakanna skal fyrir aðalfund tilnefna þriggja manna uppstillingarnefnd. Hlutverk hennar er að tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi. Skal nefndin í störfum sínum leitast við að tryggja að jafnræði ríki milli aðildarsamtakanna um setu í stjórn, að jafnrétti ríki milli kynja um stjórnarþátttöku, svo og að eðlileg endurnýjun stjórnarmanna eigi sér stað.

 

 1. gr.

Formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Hana skipa varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnendur. Stjórnin ber ábyrgð á störfum samtakanna. Hún getur skipað sérstakar nefndir til að sinna tilteknum málefnum og getur ráðið starfsfólk eftir því sem fjárhagur leyfir. Stjórnarfundir skulu færðir til bókar og skal bókunin vera aðgengileg aðilum að samtökunum.

 

Fjárhagsmál

 

 1. gr.

Heimilt er að ákveða sérstakt árgjald aðildarfélaga að Almannaheillum og skal það ákveðið á aðalfundi. Þá er samtökunum heimilt að afla styrktaraðila og jafnframt að taka við framlögum frá ríki og sveitarfélögum.

 

 1. gr.

Reikningsárið skal vera almanaksárið. Minnst tveimur vikum fyrir aðalfund skal senda aðilum að samtökunum ársreikning yfirfarinn af tveimur skoðunarmönnum.

 

 1. gr.

Formaður og gjaldkeri skuldbinda samtökin í sameiningu, í umboði stjórnar, en í fjarveru annars þeirra kemur einhver stjórnarmanna í stað þess sem er fjarverandi.

Lagabreytingar

 

 1. gr.

Tillögur um breytingar á lögum samtakanna skal senda stjórn eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Tillögur til breytingar á lögum skal senda aðildarsamtökum a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.

 

 1. gr.

Til að breyta lögum þessum þarf 2/3 fulltrúa á aðalfundi. Til þess að leggja samtökin niður þarf sama hlutfall atkvæða. Séu samtökin lögð niður falla eignir þeirra til góðgerðarmála að ákvörðun aðalfundar.

 

Afgreitt á aðalfundi Almannaheilla 30. maí 2011

Breyting var gerð á 1.grein á aðalfundi 12. júní 2014

Ákvæði til bráðabirgða var fellt út á aðalfundi 26. maí 2016

Breyting var gerð á 1., 2., 3., 4., 6., 7., 8., 10., 12., og 15.greinum á aðalfundi 26. maí 2016

 

 

 

 1. Önnur mál.

Voru engin.  Fundarstjóri þakkaði fyrir sig.

 

Formaður Ketill Berg Magnússon þakkaði fundarmönnum komuna og þeim sem gengu nú úr stjórn störf þeirra fyrir samtökin. Jafnframt bauð hann nýja aðila í stjórn velkomna og sleit fundi í framhaldi.

 

 

 

Alls mættu 20 manns til fundarins.

Nafnalisti gekk meðal fundarmanna.