Nýjum skattareglum félagasamtaka fagnað á aðalfundi Almannaheilla


Á aðalfundi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, sem haldinn var í byrjun júní, var fagnað gildistöku laga um nýtt rekstrarform almannaheillafélaga og nýjum ívilnandi skattareglum fyrir samtök sem vinna almannaheill sem nýlega tóku gildi.

Almannaheillasamtök gera ráð fyrir að þessar lagabætur styrki rekstrarumhverfi þeirra í landinu til muna – þau eigi nú kost á skýrara rekstrarformi en áður, sem skilgreini réttindi þeirra og skyldur, og þau njóti með þeim aukinna skattaívilnana, sem nái bæði til þeirra sem skattgreiðenda og til þeirra sem styðja almannaheillasamtök með fjárhagslegum hætti – að því leyti nálgist rekstrarumhverfið það sem þekkist í helstu samanburðarlöndum Íslands.

Í skýrslu stjórnar sem lá fyrir aðalfundinum var hnykkt á mikilvægi þessara breytinga: “Gildistaka þessara laga, bæði skattabreytinganna og laga um félög til almannaheilla, var síðan 1. nóvember 2021. Það var því stór dagur í sögu þriðja geirans á Íslandi”.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra ávarpaði fundinn og sagði að í nýjum lögum um félög til almannaheilla og breytingar á skattalögum fælust ýmis tækifæri fyrir almannaheillasamtök; auk þess fælist í þeim viðurkenning stjórnvalda á því mikla og góða starfi sem unnið er á vettvangi félagsamtaka; hann sæi tækifærin ekki síst stað í velferðarmálum og frumkvæði í að takast á við ýmsar félagslegar áskoranir; sagði hann hlutverk félagasamtaka í að ryðja brautina í þeim efnum mikilvægt.

Almannaheillaskrá og almannaheillafélagaskrá

Á aðalfundinum var félagslögum Almannaheilla breytt til að greiða fyrir skráningu samtakanna á almannaheillafélagaskrá (hluti af fyrirtækjaskrá) og einnig á almannaheillaskrá Skattsins. Almannaheillaskrá opnar fyrir að gjöfum einstaklinga og fyrirtækja til samtaka fylgi afsláttur á skattgreiðslum stuðningsaðilanna sjálfra. Fram kom að hátt á fjórða hundrað samtaka eru nú þegar á almannaheillaskrá Skattsins og fjármálaráðuneytið hefur gefið út að 20 þúsund eintaklingar hafi notið góðs af þessum afslætti í skattgreiðslum vegna síðasta árs.

Í félögslögum Almannaheilla er nú tekið fram að samtökin starfi samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

Siðareglur styrktar

Á aðalfundinum voru ennfremur samþykktar breytingar á siðareglum Almannaheilla, sem gilda fyrir starfsemi félagsins og ná til aðilarfélaga Almannaheilla; reglunum er ætlað að setja viðmið um breytni, fagmennslu og ábyrgð sem hvílir á starfsfólki, stjórnun og sjálfboðaliðum félaganna umfram lagalegar skyldur; þær snerta upplýsingagjöf, framkomu, meðferð fjámuna og mögulega hagsmunaárekstra.

Í nýju ákvæði segir að stjórnir, starfsfólk og sjálfboðaliðar gæti þess að hafa hagsmuni þeirra félagasamtaka sem þeir starfa fyrir ávallt að leiðarljósi, m.a. með því að láta tímabundið eða alfarið af trúnaðarstörfum komi upp álitamál er varða þá persónulega.

Mörg af aðildarfélögum Almannaheilla leggja þessar siðareglur til grundvallar eigin siðareglum sem sniðnar eru nánar að þeirra starfsemi.

Nýsköpunarvettvangur í mótun

Í skýrslu stjórnar kom fram að áfram er unnið að því að koma upp nýsköpunarvettvangi fyrir almannaheillasamtök. Mun hlutverk hans verða að styðja við þau félagasamtök sem vinna að nýjum eða endurskipulögðum verkefnum, takast á við samfélagslega nýsköpun, verða brautryðjendur í að leysa samfélagsleg samfélagsleg viðfangsefni og vandamál á hugmyndaríkan og áhrifaríkan hátt. Ýmis samfélagsleg vandamál liggja t.d. óleyst í framhaldi af kórónuveirufaraldrinum. Almannaheill hefur haft samráð við fjölmarga aðila um slíkan vettvangs, bæði innan og utan samtakanna; er stefnt að því að honum verði komið á fót með samstarfi við ýmsa aðila, s.s. sveitarfélagið Garðabæ, eins og Eiríkur Björn Björvinsson sviðsstjóri gat um í ávarpi á aðalfundinum, en skrifstofur Almannaheilla eru í Urriðaholti í Garðabæ.

Stjórn Almannaheilla

Jónas Guðmundsson var endurkjörinn formaður Almannaheilla. Aðrir stjórnarmenn eru Hildur Helga Gísladóttir, Guðlaug Birna Guðjónsdóttir, Árni Einarsson, Ingveldur Jónasdóttir, Laufey Guðmundsdóttir og Vilmundur Gíslason. Í varastjórn eru Ásdís Eva Hannesdóttir, Guðrún Helga Hannesdóttir, Sigmar Þór Ármannsson, Arnar Ævarsson, Tryggvi Axelsson, Jón Aðalsteinn Bergsveinsson og Tómas Ingi Torfason.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra
Jónas Guðmundsson formaður Almannaheilla