Lýsa

Lýsa 2019 fer fram í Hofi á Akureyri dagana 6. og 7. september. Nánari upplýsingar er að finna á www.lysa.is.

Tölum saman, taktu þátt!
Allir eru velkomnir á Lýsu, upplýsandi hátíð um samfélagsmál. Engin aðgangseyrir er fyrir almenning. Viljir þú standa fyrir viðburði getur þú sent inn skráningu hér. Viðburðir hátíðarinnar eiga það sameiginlegt að hafa samfélagslega tengingu, vera opnir öllum og gestum að kostnaðarlausu.

Lýsa býður öllum að koma og varpa ljósi á sín málefni. Á hátíðinni er hægt að eiga í samtali við almenning og ráðamenn og láta í ljósi sínar skoðanir.

Markmið
Lýsa vill efla samtalið um samfélagið og hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálafólks.  Þannig sköpum við meiri skilning og traust í samfélaginu.

Aðstandendur
Aðstandendur Lýsu eru Almannaheill og framkvæmdaraðili er Menningarfélag Akureyrar. Hátíðin er sjálfstæð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annars staðar. Velferðarráðuneytið styrkir hátíðina.

Aðdragandi
Lýsa er lýðræðishátíð í anda slíkra viðburða sem hafa fest sig í sessi á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár, s.s. Almedalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi.

Fram að 2018 gekk Lýsa undir nafninu Fundur fólksins og fór hátíðin í fyrsta skipti fram 11.-13. júní 2015 í Norræna húsinu í Reykjavík.