Fundur fólksins er lýðræðishátíð í anda slíkra viðburða sem hafa fest sig í sessi á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár, s.s. Almedalsveckan á Gotlandi í Svíþjóð, Folkemødet á Bornholm í Danmörku og Arendalsuka í Noregi. Fundur fólksins á Íslandi var haldinn í fyrsta skipti 11.-13. júní 2015. Yfir 150 atriði voru á dagskrá frá 40 félagasamtökum. Norræna húsið átti veg og vanda að hátíðinni og var markmiðið að skapa umgjörð fyrir fundinn. Beinn útlagður kostnaður vegna Fundar fólksins árið 2015 var 8,7 m.kr. auk þess lagði Norræna húsið til húsið, ýmsan búnað og laun starfsmanna við undirbúninginn. Félagasamtökin sem tóku þátt báru sjálf ábyrgð á sínum dagskrárliðum. Mat Norræna hússins er að meðalfjöldi gesta á alla viðburði hafi verið um 180 manns á dag þessa þrjá daga.
Þátttakendur í Fundi fólksins árið 2015 hafa, undir forystu Almannaheilla – samtaka þriðja geirans, unnið að undirbúningi Fundar fólksins 2016 frá því haustið 2015. Markmiðið er að regnhlífasamtök úr öllum geirum samfélagsins, auk ríkis og sveitafélaga, fjármagni umgjörð og undirbúning hátíðarinnar svo þátttaka almennings, félagasamtaka og stjórnmálamanna á fundinum sjálfum verði sem best.
Fundur fólksins 2016
Fundur fólksins verður haldinn 2.-3. september 2016. Almannaheill – samtök þriðja geirans hefur boðist til að vera í forsvari fyrir fundinn og Norræna húsið hefur boðið húsið, ýmis konar aðstöðu og vinnu við kynningarmál. Nauðsynlegt er að ráða verkefnastjóra sem tekur að sér undirbúning og framkvæmd þessarar tveggja daga hátíðar, m.a. að tryggja þátttöku sem flestra félagasamtaka, en einnig framkvæmd sjálfrar hátíðarinnar, setja upp svið, hljóðkerfi og tjöld, auk þess að skipuleggja dagskrá fyrir fjölda félagasamtaka og kynna hana fyrir almenningi. Áætlaður kostnaður við Fund fólksins 2016 eru 10 m.kr. (sjá fjárhagsáætlun). Framlag Almannaheilla og Norræna hússins er stuðningur við verkefnið og mun ekki útheimta fjárhagslegan kostnað af hálfu Fundar fólksins.
Markmið
Fundur fólksins verði árleg lýðræðishátíð í anda slíkra funda á hinum Norðurlöndunum þar sem ólíkir
hópar koma saman ræða þau mál sem þeim finnst mikilvæg og hvernig samfélag þeir vilji að Ísland verði í framtíðinni. Grasrótahreyfingar stíga á stokk og kynna sjónarmið sín. Stjórnmálamenn koma út úr þinghúsinu og af sjónvarpsskjánum og fá sér sæti með fólkinu í landinu, hlusta á sjónvarmið þeirra og skiptast á skoðunum. Fyrirtæki kynna hvernig þau leggja af mörkum til samfélagsins með starfsemi sinni og launþegasamtök benda á mikilvæga hagsmuni vinnandi fólks. Fundur fólksins er suðupottur hugmynda þar sem alvöru fólk hlustar og ræðir saman í eigin persónu. Fundur fólksins er því samtalsvettvangur þar sem markmiðið er að skapa meira traust og skilning milli ólíkra aðila samfélagsins án þess að vera föst í venjubundnum umræðufarvegi stjórnmála eða fjölmiðla.
Utanumhald og skipulag
Aðstandendur Fundar fólksins eru breiður hópur félagasamtaka sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd fundarins árið 2015.
Almannaheill – samtök þriðja geirans er formlegur framkvæmdaraðili Fundar fólksins.
Stýrihópur verkefnisins er fimm manna hópur sem ber ábyrgð á markmiðasetningu og fjármálum Fundar fólksins auk þess að taka meiriháttar ákvarðanir um framkvæmd. Í stýrihópi eiga sæti fulltrúar Almannaheilla, Norræna hússins, auk annarra aðila Fundar fólksins. Stýrihópurinn hittist tvisvar í mánuði síðustu fimm mánuði fyrir, og einu sinni í viku síðustu fjórar vikur fyrir Fund fólksins
Verkefnastjóri er ráðinn af stýrihópi til að sjá um framkvæmd verkefnisins í samræmi við samþykkta framkvæmdar- og fjárhagsáætlun. Til verkefnastjóra eru gerðar kröfur um mikla reynslu af viðburða- og verkefnastjórnun auk skipulags og ábyrgðar í meðferð fjármála. Verkefnastóri er að störfum frá apríl og skilar af sér með uppgjörsskýrslu 20 dögum eftir að Fundi fólksins líkur.
Fagráð er stýrihópnum til stuðnings. Þar eiga sæti fulltrúar breiðfylkinga og regnhlífasamtaka félaga sem þátt taka í Fundi fólksins.
– Almannaheill, samtök þriðja geirans
– ASÍ
– SA
– Sameiginlegur fulltrúi stjórnmálaflokka
– Norræna húsið
– Norræna félagið
– Sameiginlegur fulltrúi lífsskoðunarfélaga
– Samband íslenskra sveitafélaga
– Auk þess er gert ráð fyrir að fulltrúar ríkis og þess sveitafélags sem hýsir Fund fólksins eigi þar fulltrúa.
Fagráð kynnir sjónarmið hagsmunaaðila Fundar fólksins um framkvæmdina, kemur með hugmyndir, leggur mat á framgang verkefnisins og sér um upplýsingaflæði til félagasamtaka hver í sínum geira. Fagráð hittist u.þ.b. fjórum sinnum í aðdragandanum og á uppgjörsfundi að Fundi loknum.
Fjármögnun
Kostnaður vegna utanumhalds Fundar fólksins 2015 var fjármagnaður með styrkjum. Norræna ráðherranefndin veitti styrk upp á tæpar 5 m.kr. Samstarfsráðherra Norðurlanda veitti kr. 1 m.kr. Norræna húsið veitti 1 m.kr. Reykjavíkurborg veitti styrk uppá kr. 500 þús., auk fleiri aðila sem veittu lægri styrki. Norræna ráðherranefndin gaf í skyn að styrkurinn væri til þess að koma slíkum fundi á laggirnar á Íslandi og þess væri ekki að vænta aftur.
Undirbúningshópurinn fyrir Fund fólksins 2016 taldi nauðsynlega forsendu þess að halda Fund fólksins aftur vera að fjármögnun á grunnumgjörðinni sé tryggð með góðum fyrirvara. Leitað hefur verið eftir styrkjum frá stærstu breiðfylkingum félagssamtaka í landinu og aðila úr ólíkum geirum samfélagsins:
– Reykjavíkurborg
– Ríkisstjórnin
– Samtök íslenskra sveitafélaga
– ASÍ
– Samtök atvinnulífsins
Auk slíkra styrkja verða kannaðir möguleikar á stuðningi frá fyrirtækjum sem kynna vilja vörur sínar og þjónustu á fundi Fólksins.