Eins og fram hefur komið hafa Almannaheill samið við Norræna félagið um að sjá um framkvæmd lýðræðishátíðarinnar Fundar fólksins næstu þrjú ár. Tilgangur Fundar fólksins er að skapa vandaðan vettvang, þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka í því skyni að skapa meira traust og skilning á milli ólíkra aðila samfélagsins. Fundur fólksins verður haldinn í Norræna húsinu dagana 16.-17. október næstkomandi.
Síðast liðin þrjú ár hefur verið samið við Menningarfélag Akureyrar (MAK) um framkvæmd hátíðarinnar til eins árs í senn. Í viðræðum síðustu mánuði varð ljóst ekki myndi nást saman um fjórða árið. Almannaheill gátu ekki samþykkt kröfur MAK um gagngerar breytingu á fyrra samkomulagi auk þess sem þátttaka í hátíðinni hafði farið hraðminnkandi. Þá var talið tímabært að gefa nýjum hópi fólks, félagasamtaka og stofnana tækifæri til að taka þátt í þessum fundum nær eigin starfsvettvangi eins og mörg þeirra höfðu óskað eftir.
Almannaheill þakkar Menningarfélagi Akureyrar samstarfið á liðnum árum, en harmar hins vegar rangfærslur sem félagið hefur látið frá sér fara um lok þess. Fullyrðingar um samráðsleysi við töku þessarar ákvörðunar eiga ekki við rök að styðjast. Samkomulagið var útrunnið og eftir marga samráðsfundi og fjölda tölvubréfa sem fóru á milli aðila á síðasta ári var ljóst að ekki var grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi.
Almannaheill vonast til þess að lýðræðishátíðin Fundur fólksins eflist nú á ný og að almenningur finni þar vettvang til að ræða málefni sem brenna á fólki. Norræna húsið verður nú aftur vettvangur þessarar hátíðar en lýðræðishátíðin var fyrst haldin í Norræna húsinu í júní árið 2015 og á sér fyrirmynd annars staðar á Norðurlöndunum. Reykjavíkurborg og félagsmálaráðuneytið styrkja hátíðina, auk þess sem þátttakendur taka þátt í kostnaði.
14. september 2020
Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla