Tryggja þarf að almannahagsmunir séu ekki fótum troðnir af fámennum hóp

Tryggja þarf að almannahagsmunir séu ekki fótum troðnir af fámennum hóp

Neytendasamtökin á Íslandi þurfa að tvöfaldast í umfangi til að vera á pari við hin Norðurlöndin svo almannahagsmunir fái það vægi sem nauðsynlegt er til að stuðla að velferð allra í samfélaginu, að mati Breka Karlssonar formanns samtakanna.

Tryggja þarf að almannahagsmunir séu ekki fótum troðnir af fámennum hóp

Breki segir að aðstöðumunur sérhagsmuna og almannahagsmuna hér á landi sé sérstakt „rannsóknarefni“ sem kalli á tafarlaus viðbrögð.

„Togstreita sérhagsmuna og almannahagsmuna í samfélaginu eru ekki óeðlilegir og hugsanlega nauðsynlegir fyrir heilbrigt lýðræðislegt samfélag en það er mikilvægt að tryggja að almannahagsmunir fái nægilegt vægi til að stuðla að velferð allra en ekki einungis fárra. Að smávægilegir hagsmunir mikils fjölda fólks séu ekki fótum troðnir af mjög ríkum hagsmunum fámenns hóps.“

Þetta sagði Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í erindi sínu á Fundi fólksins sem haldinn var í Hörpu þann 29. nóvember síðastliðinn. Fjallaði hann um sögu neytendaverndar á Íslandi og mikilvægi hennar til þess að vernda hagsmuni almennings gegn sérhagsmunum.

Fámennur hópur með góð sambönd og háa rödd
Breki útskýrði mál sitt frekar varðandi togstreituna á milli sérhagsmuna og almannahagsmuna með því að taka gróft ímyndað dæmi um að ef fámennur hópur hefði 500 krónur af hverjum Íslendingi með klækjabrögðum þá hefði hópurinn þannig tæpa tvo milljarða upp úr krafsinu. „Fæstum munar mikið um 500 kall og fáir myndu leggja stóra lykkju á leið sína til að endurheimta féð en fámenni hópurinn myndi líklega verja milljarðana sína tvo með kjafti og klóm og leggja mikið á sig til að viðhalda auðnum,“ sagði hann.

„Vissulega reiðum við okkur á að lög, reglur og eftirlitsstofnanir verndi okkur gegn svindli en fámenni hópurinn hefur í krafti fjár síns góð sambönd og háa rödd í samfélaginu og með það að markmiði að hámarka eigin ávinning jafnvel þó það geti haft neikvæð áhrif á heildina. Í raunveruleikanum getur togstreita almannahagsmuna og sérhagsmuna líst sér þannig að fyrirtæki leitast við að hámarka hagnað sinn, oft með því að halda kostnaði í lágmarki sem getur leitt til lélegrar vöru eða þjónustu,“ sagði Breki. Þá gætu afleiðingarnar einnig líst sér í ófullnægjandi upplýsingum um vörur og mögulegri skaðsemi eða aðgerðum sem brjóta á persónuvernd neytenda. „Að sama skapi þurfa neytendur sanngjörn lög og reglur. Við viljum að vörur standist kröfur og séu öruggar. Við viljum fá réttmætar upplýsingar og að fyrirtæki beri ábyrgð á vörum sínum og þjónustu.“

Nefndi Breki tóbaksiðnaðinn sem dæmi um togstreitu eða jafnvel átök sérhagsmuna en sá iðnaður leyndi upplýsingum um skaðsemi vara sinna í áratugi. Hann nefndi einnig efnaiðnaðinn sem í áratugi fékk að setja ný efni á markað án þess að áhrif þeirra á heilsu og lífríki lægju fyrir. Þá benti Breki á samfélagsmiðlafyrirtækin sem á undanförnum árum hafa verið dæmd til að greiða tug milljarða sektir fyrir brot og misnotkun á persónuupplýsingum.

„Mældu rétt, strákur!“
Breki hóf mál sitt á Fundi fólksins með því að rifja upp fleyg orð sem okurkaupmaður nokkur viðhafði við Skúla Magnússon þegar hinn síðarnefndi starfaði á unglingsaldri hjá kaupmanninum en hann sagði: „Mældu rétt, strákur!“ Átti kaupmaðurinn við að Skúli ætti að snuða viðskiptavinina og vikta laklega þannig að þeir fengju minna fyrir sinn snúð. Þessi orð höfðu þau áhrif á Skúla að hann strengdi þess heit að vinna að neytendamálum það sem eftir væri ævinnar, reka úr landi einokunarkaupmennina og bæta lífskjör og verslun Íslendinga.

„Vissulega er Skúla minnst fyrir baráttuna gegn óprúttnum verslunarháttum. Síðar, þá orðinn landfógeti, átti hann þátt í því að sækja síðan Almenna verslunarfélagið til saka fyrir vörusvik. Málið vannst og félagið var dæmt í að greiða Íslendingum 4.400 ríkisdali í skaðabætur eða sem jafngildir um hálft kúgildi á hvert mannsbarn á þeim tíma. Og ef við uppfærum það til dagsins í dag þá eru þetta um það bil 60 milljarðar króna,“ benti Breki á og bætti því við að slík upphæð skipti í raun og veru miklu meira máli í fátæku samfélagi 18. aldar en hún myndi gera í dag.

„Fyrir sektarféð var mjölbótasjóðurinn stofnaður sem síðar greiddi fyrir byggingu Menntaskólans í Reykjavík, auk þess sem að styrkja góð málefni og ýmis framfaramál í landbúnaði til á fimmta áratuga. Segið svo að neytendabarátta borgi sig ekki,“ sagði Breki. „Skúli barðist hatrammlega gegn einokunarversluninni en entist ekki ævin til að sjá verslunarfrelsið sem hann barðist fyrir raungerast.“

Neytendasamtökin stofnuð til að jafna vægið
Breki hélt áfram söguskoðun sinni varðandi neytendamál í íslensku samfélagi. „Það má segja að fyrir utan kaupalögin og nokkrar aðrar lagasetningar á þriðja áratug síðastu aldar, meðal annars um að salt skyldi seljast eftir vigt og um þyngd bakarabrauða, þá má eiginlega segja að lítið hafi gerst í neytendamálum en á sama tíma tóku atvinnurekendur í hinum ýmsu geirum að bindast samtökum til að gæta að og vinna að sérhagsmunum sínum. Það var ekki fyrr en árið 1953 sem hópur fólks, undir forystu Sveins Ásgeirssonar, stofnaði Neytendasamtökin til að vega upp ójafnræði samtakamáttar skipulagðra sérhagsmuna annars vegar og dreifðra almannahagsmuna hins vegar. Reyndar eru Neytendasamtökin líklega þriðju eða fjórðu elstu neytendasamtök í heimi, þökk sé þessu framsýna fólki.“

Hann vitnaði í orð Sveins en í útvarpserindi sem hann hélt í aðdraganda stofnunar samtakanna árið 1952 sagði hann: „Ekkert er eðlilegra en að framleiðendur yrðu langtum fyrri til en neytendur að stofna með sér samtök. Það er auðveldara að stofna félag pylsugerðarmanna en félag manna sem eta pylsur. Það er fljótlegra að hóa þeim saman en hinum síðarnefndu. Mönnum finnst að sjálfsögðu eðlilegra, að þeir sem hafi pylsugerð að atvinnu myndi með sér samtök, þar sem gera megi aftur á móti ráð fyrir að hinir hafi það ekki að atvinnu að eta pylsur. En það eru ekki sams konar störf út af fyrir sig, sem skipa mönnum saman, heldur fyrst og fremst sameiginlegir hagsmunir.“

Tuttugu sérhagsmunafélög og sex almannahagsmunafélög
Breki vék í framhaldinu máli sínu að svokölluðum hagsmunavörðum en á vef Stjórnarráðsins er listi yfir slíka einstaklinga sem tekinn hefur verið saman samkvæmt lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Hann benti á að hagsmunavörðum, sem tala máli einkaaðila gagnvart stjórnvöldum og leitast við að hafa áhrif á störf þeirra í atvinnuskyni, væri skylt að tilkynna forsætisráðuneytinu um sig og hlutverk sitt. Lögaðilum og fyrirtækjum væri jafnframt heimilt að senda tilkynningu um þá einstaklinga sem sinna hagsmunagæslu í umboði þeirra. „Á þessum lista eru 26 félög. Það eru 20 sérhagsmunafélög, samtök í atvinnulífinu sem vinna að hagsmunum fárra, og sex almannahagsmunafélög sem vinna að hagsmunum heildarinnar á sviðum mannréttinda, umhverfisverndar, lýðheilsu og neytendaverndar. Aðstöðumunur þessara hagsmunavarða er náttúrulega rannsóknarefni – eitthvað sem ætti að ráðast í nú þegar.“

Hann sagði að afar erfitt væri að verða sér út um tölulegar upplýsingar um þennan aðstöðumun en samkvæmt Hagstofunni störfuðu 188 manns hjá sérhagsmunafélögunum og greiddu þau um 2,1 milljarð í laun á síðasta ári. Þannig mætti varlega áætla að sérhagsmunaverðir veltu um 5 milljörðum króna þegar allt væri talið eða í það minnsta nokkur hundruð sinnum meira en almannahagsmunaverðirnir á lista Stjórnarráðsins. „Sem dæmi voru tæplega sex stöðugildi hjá Neytendasamtökunum í fyrra og launagreiðslur voru innan við 70 milljónir króna og veltan innan við 110 milljónir samtals. Í krafti stærðar sinnar hafa sérhagsmunasamtökin margfalt meira afl enda hafa þau í gegnum tíðina sum hver gortað sig af því að nánast allt sem þau legðu til væri samþykkt af stjórnvöldum. Þá hafa þau verið staðin að því að umskrifa frumvarp til laga á Alþingi á milli umræðna. Jafnvel svo að dómstólar hafa gert þau afturræk, samanber afurðastöðvafrumvarpið sem dæmt var sem ólög nú um daginn,“ sagði Breki.

„Stjórnvöld gegna stóru hlutverki í neytendamálum því að það er á þeirra ábyrgð að tryggja alla umgjörð með lagasetningu og að eftirlitsstofnanir, eins og Neytendastofa, Samkeppniseftirlitið og Persónuvernd, geti sinnt sínu hlutverki. Frjáls félagasamtök, hagsmunaverðir almennings, svo sem umhverfisverndarsamtök, mannréttindasamtök og samtök neytenda eru ómissandi til að sporna við þrýstingi sérhagsmunaaflanna og veita þeim og stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Það þarf auðvitað að finna leið til þess að jafna leikinn meira. Auka vægi og gengi almannahagsmunavarðanna en fyrst þarf að kortleggja geirann líkt og menningargeirinn hefur verið kortlagður. Þegar við vitum hvaða hagrænu áhrif þriðji geirinn hefur, sérstaklega almannahagsmunaverðir, og umfang hans í hagkerfinu þá getum við tekið ákvarðanir um hvað þarf að gera betur.“

Neytendur hafa vald – en gætu orðið miklu öflugi
Samkvæmt Breka eru Neytendasamtökin á Íslandi stærst allra neytendasamtaka í heiminum, það er að segja miðað við „höfðatöluna frægu“. Hann benti á að tvö prósent Íslendinga væru félagar í Neytendasamtökunum og að hvergi á byggðu bóli væru hlutfallslega jafn margir félagsmenn.

„Í Danmörku þar sem eru næst stærstu neytendasamtökin eru um það bil 1,5 prósent Dana félagsmenn. En í fámennu samfélagi vinnur enginn á hlutföllum. Neytendasamtökin á Íslandi gætu verið svo miklu miklu öflugri. Til að mynda erum við einu neytendasamtökin á Norðurlöndunum sem ekki erum á fjárlögum þó samtökin fái að vísu greiðslu frá hinu opinbera í gegnum þjónustusamninga. Sem dæmi þá greiðir norska ríkið allan kostnað af norsku neytendasamtökunum, 100 prósent. Í Danmörku fá dönsku systursamtökin um þriðjung af fjárlögum og þriðjung í gegnum þjónustusamninga af sínum tekjum. Starfsemi neytendasamtakanna er með sem áður segir einungis sex stöðugildi en til þess að halda í við hlutfallslegan fjölda systursamtaka á Norðurlöndum þyrftum við að vera tvöfalt fleiri,“ sagði hann.

Breki lauk máli sínu með því að benda á að sérhagsmunir og almannahagsmunir væru tveir pólar á sömu kúlunni sem toguðust á og hvorugur gæti án hins verið. „Það er þeim mun mikilvægara að tryggja að jafnvægi haldist á milli þeirra eins og mögulegt er og að almannahagsmunir fái nægilegt vægi til að stuðla að velferð allra en ekki bara fárra. Munum líka að sem neytendur höfum við vald. Verum vakandi, krefjumst upplýsinga og verjum rétt okkar. Ef einhver í dag vogar sér að kalla „mældu rétt, strákur!“ getum við verið viss um að almannahagsmunaverðir stappi niður fæti, leiðrétti einokunarkaupmanninn og setji hann í skammarkrókinn,“ sagði hann að lokum.

Fleiri fréttir

Tryggja þarf að almannahagsmunir séu ekki fótum troðnir af fámennum hóp

Neytendasamtökin á Íslandi þurfa að tvöfaldast í umfangi til að vera á pari við hin Norðurlöndin svo almannahagsmunir fái það vægi sem nauðsynlegt er til að stuðla að velferð allra í samfélaginu, að mati Breka Karlssonar formanns samtakanna.
Nánar →

Lýðræðishátíð unga fólksins – Samantekt

Samantekt í kjölfar Lýðræðishátíðar unga fólksins 2024 er væntanleg.
Nánar →

Fundur Fólksins í Hörpu 2024 – Samantekt

Samantekt í kjölfar Fundar fólksins 2024 er væntanleg.
Nánar →
Scroll to Top