Að mörgu er að huga í starfsemi frjálsra félagasamtaka. Hildur Tryggvadóttir Flóvenz, sérfræðingur hjá KPMG í málefnum þriðja geirans og sjálfbærni, sagði á Fundi fólksins sem fór fram í Hörpu 29. nóvember síðastliðinn að mikilvægt væri annars vegar að huga að því hvernig hefðbundin frjáls félagasamtök fjármagni sig og hins vegar skoða hvaða áskoranir þau standi frammi fyrir í nánustu framtíð.
Hún sagði að gott væri að hafa í huga nokkur atriði þegar kemur að fjármögnun. Í fyrsta lagi þurfi ávallt að vera vitneskja um það hvaðan núverandi fjármagn kemur og meta hversu stöðugt það sé – og hvort möguleiki sé að fá það áfram. Enn fremur þurfi að velta fyrir sér hvort það fjármagn sem nú þegar er til staðar sé það fjármagn sem félagasamtök vilja vera með til framtíðar.
„Af hverju ættum við að vera að hugsa um það hvort við séum með „rétt fjármagn“?“ spurði Hildur. Hún benti á að vitund væri að aukast um áhrif fyrirtækja og félagasamtaka á samfélag og umhverfi og fleiri vildu hugsanlega vita meira um starfsemina áður en þau ákveddu að styrkja með einhverslags fjármagni. „Þetta getur birst mismunandi á milli hópa. Ef við hugsum til dæmis um fyrirtæki, þá vinna þau í auknum mæli að því að gera viðskiptamódel sín sjálfbær. Það er að vera með viðskiptamódel sem styður ekki einungis við að fá fjárhagslegan hagnað heldur líka að styðja við jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi,“ sagði hún.
Krafa um ófjárhagslegar upplýsingar
Hildur sagði að í öðru lagi væri einnig aukin krafa á mörg fyrirtæki að veita ýmsar upplýsingar út á við sem væru aðrar en fjárhagslegar, oft kallaðar ófjárhagslegar upplýsingar eða sjálfbærniupplýsingar. „Þetta eru þá upplýsingar um það hvernig fyrirtækin standa sig kannski í umhverfismálum, hvernig þau eru að koma fram við fólkið sem starfar hjá því, hvernig þau koma fram við fólkið í virðiskeðjunni sinni, hvernig þau eru að tryggja viðskiptasiðferði sitt í virðiskeðjunni sinni, hvernig þau tryggja mannréttindi og gagnaöryggi og ýmislegt fleira.“
Benti Hildur á að þegar fyrirtækin veittu þessar upplýsingar þá vildu þau eðlilega sýna fram á að starfsemin væri raunverulega að hafa jákvæð áhrif á umhverfi eða samfélag. Ekki mætti til að mynda vinna að góðum loftslagsverkefnum sem brytu mannréttindi á sama tíma.
Til viðbótar gætu fyrirtæki einnig farið að hugsa um hvaðan frjálsu félagasamtökin fengju annað fjármagn, því ef þau fjármagni sig á einhvern ákveðinn hátt sem stangaðist á við sjálfbærniáherslur fyrirtækisins þá gæti vel verið að fyrirtækið ákvæði að styrkja ekki félagið, til dæmis ef það fjármagnaði sig með fjárhættuspili, lottói eða einhverri óumhverfisvænni starfsemi.
Margir farnir að setja þrengri skilyrði fyrir styrki
Hildur sagði að þetta ætti ekki einungis við um fjármögnun frá fyrirtækjum heldur einnig frá einstaklingum. Mörg félagasamtök reiddu sig á fjármagn frá einstaklingum í formi einhverslags mánaðarlega styrkta. Þannig gætu einstaklingar farið að hugsa sig um hverja og hvaða félög þeir styrktu eftir því hvernig félögin stæðu sig í til dæmis umhverfismálum eða mannréttindamálum.
„Þá geta opinberir aðilar líka, og hugsanlega einhverjir sjóðir, farið að setja fram skilyrði um að til þess að fá styrki þá þurfi að sýna fram á ýmsa þætti eins og hver losun okkar er, hvað við losum mikið af gróðurhúsalofttegundum, hvernig við tryggjum mannréttindi í virðiskeðjunni, við hverja erum við að versla og svo framvegis eða bara hvernig við getum sýnt fram á hvernig við vinnum eftir siðareglum okkar og tryggjum sem á sem bestan hátt að til dæmis siðareglum sé framfylgt og fjármagninu sé beint í réttar áttir.“
Margir um hituna
Í þriðja lagi sagði Hildur þegar hugsað væri til framtíðar í fjármögnun að oft væri aukin krafa á gagnsæi frá styrkjendum. „Það er ekki lengur endilega bara krafa að við opinberum fjármálin okkar og birtum ársreikningana okkar heldur er uppi krafa um að fá að vita aðeins meira.“ Hvaða raunáhrif starfsemin hefði og krafa að félögin gætu sýnt fram á það með skýrum og skilvirkum hætti.
Í fjórða lagi nefndi hún kröfur um skjót áhrif sem birtust í því hraða samfélagi sem við búum í. „Það er því kannski stór áskorun fyrir mörg samtök að sýna fram á annaðhvort skjót áhrif eða sýna fram á það sem við vitum kannski öll, að það eru oft ekki skjót áhrif. Við erum að horfa til lengri tíma og erum að vinna að einhverju sem hefur kannski stigvaxandi áhrif og gerist hægar heldur en kannski einhver vill fá að sjá sem ætlar að veita fjármagn í starfsemina okkar.“
Á síðust árum hefur samkeppnin um fjármagn aukist til muna, að sögn Hildar, og kom hún að fimmta punktinum. Hún benti á að fjöldi skráðra frjálsra félagasamtaka á Íslandi hefði aukist gríðarlega og að ný félög með áherslu á sömu málefni og önnur félög væru að koma fram. „Þannig að þegar fjöldi félaganna eykst þá auðvitað eykst samkeppni um fjármagnið af því að það er bara ákveðið mikið og það krefst svolítils af okkur. Það er áskorun þá að sýna fram á tilgang okkar, hversu skýr hann er, hvað við erum að gera og af hverju – og að geta sýnt fram á að vinnan okkar skili árangri og hafi jákvæð áhrif.“
Að halda í starfsfólk getur verið krefjandi
Hildur vék í erindi sínu næst að skipulagi frjálsra félagasamtaka og hvaða áskoranir þau stæðu frammi fyrir varðandi það. „Kannski í fyrsta lagi þá er áskorun að fá fólk til starfa fyrir okkur. Auðvitað gengur það misvel eftir félögum og verkefnum en það eru svona ákveðin „trend“ í samfélaginu og hefur verið um þó nokkurn tíma.“ Hún benti á að fólk vildi síður helga sig ákveðnu félagi og frekar vinna að stökum verkefnum.
„Þetta á ekkert bara við um almannaheillafélög og frjáls félagasamtök – þetta á almennt við. Fyrirtæki ströggla líka við að fá fólk til að vera hjá sér kannski í lengri tíma. Við sjáum svona aukningu í að fólk vill vera að „gigga“ meira. Það vill kannski frekar taka að sér verkefni til skemmri tíma og á fleiri stöðum en að helga sig ákveðnum stað eða félagi til lengri tíma. Það er ekki þar með sagt að fólk sé endilega alltaf að skipta um málefni eða sýn, það er kannski að helga sig ákveðnu málefni en það vill geta unnið að málefninu á fleiri en einum stað. Þá koma kröfur á þessi hefðbundnu félög að vera kannski hugsanlega sveigjanlegri en áður á einhvern hátt.“
Hún sagði að það gæti verið krefjandi að vinna fyrir frjáls félagasamtök. „Málefnin eru oft erfið og skjólstæðingahópurinn okkar getur líka verið krefjandi. Þetta eru oft þung verkefni. Það getur þess vegna leitt til ákveðinnar kulnunar og jafnvel örmögnunar hjá fólkinu okkar, sérstaklega fólki sem er í beinum tengslum við skjólstæðing oft og tíðum,“ sagði hún og bætti því við að þetta ætti ekki síður við um stjórnendur félaganna. „Það tengist þessu líka að umræða í samfélaginu í dag er oft orðin óvægnari en hún var áður og það er álag að takast á við hana, umræðuna, samhliða kannski verkefnunum okkar sem eru fyrir kannski þung og erfið.“
Velferð starfsfólks skiptir meira og meira máli
Í öðru lagi benti Hildur á að hefðbundin frjáls félagasamtök hefðu stundum verið gagnrýnd fyrir að hafa of mikla yfirbyggingu. Hún sagði að víða í heiminum, til dæmis í Bretlandi, hefðu „óskipulagðir“ hópar sprottið upp og orðið vinsælir. Slíkir hópar snerust fyrst og fremst um að hjálpa náunganum og lýsti starfið sér í einskonar samfélagshjálp fyrir nærsamfélagið.
Hún sagði að fyrirtæki væru ekki einungis undir þrýstingi að hafa góð og jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag heldur þyrftu þau einnig að huga að fólkinu sem þar starfar. „Mörg fyrirtæki keppast við að bjóða upp á velferðarþjónustu sem er nokkuð nýtt í íslensku atvinnulífi.“ Slík þjónusta feldist í því að vinnuveitandi greiddi niður sálfræðitíma eða aðra geðheilbrigðisþjónustu og veitti fólki færi á að vinna að góðum málefnum á vinnutíma. Víða væri boðið upp á heilsufarsskoðanir, bólusetningar, aðstoð við menntun, íslenskukennslu og margt fleira. Fyrirtækin gengju lengra en þau hefðu sögulega gert að sinna velferðarþjónustu.
Til viðbótar við þetta leggðu fyrirtæki málefnum lið sem sneru að „einhverju samfélagslegu“. Þá gæti starfsfólkið hugsað með sér að það ynni hjá fyrirtæki sem hafði góð áhrif á samfélagið og væri það þá í raun að leggja eitthvað að mörkum. Þá væri jafnvel nóg að vinna hjá slíku fyrirtæki.
Stjórnendahópar oft of einsleitir
Í þriðja lagi sagði Hildur varðandi skipulag hefðbundinna félaga að hugsanlega væri hópurinn sem stýrði félögunum heldur einsleitur hér á landi. Hún benti á að ekki væru til nægilegar rannsóknir um þetta á Íslandi en samkvæmt könnun frá árinu 2023 í Bretlandi voru 29 prósent stærstu félaganna eingöngu með hvítt fólk í stjórnum samanborið við að 4 prósent af stærstu fyrirtækjunum voru eingöngu með hvítt fólk í stjórnun.
„Þannig að að minnsta kosti út frá litarhætti var meiri fjölbreytni í stjórnum stórra fyrirtækja en stóra almannaheillafélaga. Í annarri könnun í Bretlandi frá 2022 kom í ljós að eingöngu níu prósent mannauðs í almannaheillafélögum tilheyrðu einhverjum minnihlutahópi.“
Hún sagði að mikilvægt væri að huga að því að stjórnskipulagið tæki á þessum þáttum og tryggði með einhverjum hætti að of einsleitur hópur ákvarðaði hvernig vinna ætti best fyrir skjólstæðinga eða málstaðinn.
Mikilvægt að enginn sé hafður útundan
Í lok erindisins sagði Hildur að augljóst væri að áskoranirnar væru margar og þá hugsanlegar nýjar að einhverju leyti fyrir hefðbundin félagasamtök. „En ég held að það sé mikilvægt fyrir hefðbundinn félög í dag að hugsa til þess hver tilgangur félagsins sé og hafa hann vel á hreinu og haga starfseminni í samræmi við tilganginn. Að sýna fram á að tilgangurinn og verkefnin séu góð og séu að skila árangri.“
Mikilvægt væri að hlúa að fólkinu og huga að fjölbreytileikanum í hópnum, hvort sem um væri að ræða í stjórnum eða hjá starfsfólki og sjálfboðaliðum. Þá væri jafnframt mikilvægt að skoða hvort stjórnskipulagið styddi í raun við starfsemina og fjölbreytni. „Við þurfum að vera opin fyrir samstarfi og sveigjanleika við annars konar uppbyggingu og þarfir fólks sem starfar fyrir okkur og svo leggja áherslu á að það sem við gerum tryggi með sem bestum hætti að enginn sé útundan.“
Með allt þetta í huga væru meiri líkur á að félög gætu tryggð sér nægilegt fjármagn og sinnt skjólstæðingum og málefnum á sem bestan hátt. Hvað framtíðina varðar þá trúir Hildur því að manneskjan sé þannig gerð að hún vilji hjálpa öðru fólki. „Spurningin er bara hvernig og í hvaða formi og mikilvægast er að við hugum að því að enginn sem þarf á aðstoð að halda verði útundan.“