Íslenskan er eitt þeirra verkfæra sem mikilvægt er að nota þegar unnið er með börnum og ungmennum af erlendum uppruna en þannig er tungumálið leið fólks til að tengjast og styðja við hvert annað og valdefla. Þetta kom fram í máli Nichole Leigh Mosty, doktorsnema við Háskóla Íslands í deild menntunar og margbreytileika, en á Fundi fólksins sem haldinn var í Hörpu þann 29. nóvember síðastliðinn fjallaði hún um inngildingu í starfi með börnum og ungmennum.
Nichole hóf erindi sitt á því að óska eftir því að áheyrendur mættu henni „þar sem hún var stödd“ þar sem hún væri af erlendum uppruna. „Ef þið viljið stuðla að inngildingu ungmenna í ykkar störfum þá þurfið þið að vera mjög fær í því að mæta fólki þar sem það er statt,“ benti hún á.
Hún sagði að auðvelda þyrfti samfélagslega þátttöku og félagslega inngildingu barna og ungmenna hér á landi með mismunandi bakgrunn. „Inngilding snýst um það að mæta þeim sem þurfa meiri aðstoð. Inngilding snýst um það að tryggja að allir fái réttmæta og sanngjarna meðferð svo öllum sé kleift að taka þátt.“
Á bak við hvert barn eru foreldrar – og þeim þarf líka að hjálpa
En hvaða börn og ungmenni er verið að tala um í þessu samhengi? Nichole sagði að um væri að ræða börn með erlendan bakgrunn, börn með fötlun og börn sem glíma við ýmsa félagslega erfiðleika. Þeir erfiðleikar gætu verið af efnahagslegum toga, þeir gætu lýst sér í ofbeldi, neyslu, einelti eða einangrun og áhættuhegðun.
„Þetta getur myndast alveg frá leikskólaaldri og kemur ekkert bara með unglingsaldrinum. Við þurfum að hugsa heildstætt því bak við hvert barn eru foreldrar – og það er mjög mikilvægt. Við megum ekki bara stoppa við barnið, við þurfum að hugsa hvernig við tökum á móti foreldrum og hjálpum þeim því þeir eru partur af þessu,“ sagði hún.
Hún benti á að eftir því sem börn eldast því fleiri dyttu út úr frístund og íþróttum sem eru af erlendum uppruna. „Þar sjáum við færri börn með fötlun, færri börn af erlendum uppruna og það er eitthvað sem við þurfum að huga vel að.“
Þurfum að hugsa heildstætt
Það er margt sem við sjáum ekki við fyrstu sýn og fjallaði Nichole um það sem hún kallaði „menningarlegan ísjaka“. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum byrjaði á því að vinna með það sem það sér. Sú sýn væri þó einungis toppurinn á ísjakanum enda væri mikið undir yfirborðinu sem ekki væri vitneskja um. Hún benti á að mikilvægt væri að hugsa um allt þetta félagslega sem gerðist á bak við tjöldin og yrðu allir að spyrja sig hvernig hægt væri að mæta þessum þörfum og huga að því hvar barnið væri statt til þess að tryggja að inngildin ætti sér stað.
„Við þurfum að hugsa heildstætt um barn, umhverfi þess og félagsleg þarfir, styrkleika, veikleika og blanda þessu saman með því hvað hefur áhrif menningarlega. Því að þó að við komum frá mismunandi heimsálfum þá er líka fólk sem kemur frá Akureyri og Efra-Breiðholti með allt öðruvísi menningarlegan bakgrunn.“
Hún spurði þar af leiðandi hvernig ætti að nálgast inngildingu og hvað lægi þar undir. „Hvað er fjölbreytni? Fjölbreytni vísar til hins margvíslega félagslega og þjóðernislega bakgrunns og mismunandi kynvitundar og kynhneigðar – allt þetta sem gerir okkur ólík. En þetta snýst líka um að hafa jákvæða sýn á fjölbreytileika og vilja til að samþykkja og virða aðra að fullu. Þetta er lykilinn að þátttöku. Það gerist ekki ef við lítum ekki á fjölbreytileika með þessum hætti. Við þurfum að læra að fagna því sem er ólíkt með okkur með því að einblína á það á jákvæðan hátt samhliða því að þróa tengsl og læra um hluti sem við gætum óvænt átt sameiginlegt með öðrum. Þetta er það sem við þurfum að gera frá degi til dags í íþróttum og tómstundum.“ Hún sagði að mikilvægt væri að huga að félagslegri vellíðan barna og ungmenna og væri þessi hugsun lykillinn að því.
Inngilding er „töfraorð“
Fleiri hugtök báru á góma í erindi Nichole og var eitt þeirra „jafngildi“. Útskýrði hún það á þann veg að jafngildi fæli í sér að velja viðeigandi inngrip og samskipti til að skapa umhverfi, stefnur og venjur í starfi og lífi. Tryggja þyrfti sanngirni og það að fjölbreytileiki þrifist. „Við þurfum að viðurkenna hlutina eins og þeir eru. Þegar við mætum með jafngildi að vopni þá erum við að tala um sanngirni. Góð dæmi um inngrip er „Römpum upp“-verkefnið. Það er jafngildi.“ Benti hún á fleiri dæmi um jafngildi á borð við snemmtæka íhlutun, frístundastyrk og samræmda móttöku flóttafólks.
Nichole talaði um inngildingu sem „töfraorð“ sem fólk misskildi þó iðulega í umræðunni. „Það snýst ekki um að breyta öllu vegna þess að einhver sé öðruvísi. Það þýðir að við höfum það að leiðarljósi að í samfélagi margbreytileikans sé litið á fjölbreytileikann sem sjálfsagðan hlut. Ég og þú, af sama uppruna á sama aldri, við erum ekki eins – og við þurfum ekki að vera eins. En við leggjum áherslu á að tryggja að ég og þú fáum sömu eða viðeigandi meðferð svo að okkur sé gert kleift að taka þátt.“
Inngildin snerist þannig mikið um að valdefla fólk til þátttöku. „Ég heyri oft í umræðunni og ég er oft spurð: „Hvað þarf ég að gera til að virkja innflytjendur?“ Við virkjum ekki innflytjendur, við sköpum rými fyrir innflytjendur eða fólk með fötlun með því að tryggja að það sé hluti af samtalinu, að við hlustum á það sem er sagt og við aðlögum hlutina og vinnum með þeim. Að þeim verði gert kleift að skapa eins og við og líka taka þátt í ákvarðanatöku í eigin lífi á vinnustöðum, í pólitíkinni, í foreldrafélögum og hjá íþróttafélögum. Þetta er inngilding,“ sagði hún.
Tryggja verður að fólki upplifi sig velkomið
Inngilding snýst um þá tilfinningu að vera hamingjusamur, sáttur og öruggur, að líða vel og að finna þægindi í eigin lífi, að mati Nichole. „Að þú mátt vera þú. Þú upplifir þig sem hluti af tilteknum hóp eða eiga gott og heilbrigt samband við aðra meðlimi hópsins vegna þess að þeir bjóða þig velkominn og samþykkja þig eins og þú ert.“
Einhver kann þá að spyrja hvernig hefja eigi inngildingu. Nichole sagði að svarið væri að tryggja að öll börn og foreldrar fyndu að þau væru velkomin. „Að þau finni fyrir því að við leggjum tíma og orku í líðan barnsins. Að þeim líði vel að vera ný, að vera partur af hóp. Það er mjög mikilvægt að við séum aðgengileg, að foreldrar komi ekki með börnin í fyrsta sinn á fótboltaæfingu og að það sé í síðasta sinn sem við eigum samtal við þau. Að þau upplifi að þau geti komið til okkar aftur og aftur og ennþá mikilvægara er að við tökum það skref að kynna börnin fyrir hvert öðru.“
Hún sagði að einnig væri mikilvægt að fylgja börnunum eftir í leik og starfi – og halda tengslum á lofti. Það væri hægt til dæmis með því að spyrja barnið og foreldrar hvernig því liði. Hægt væri að vinna áfram þaðan.
Brýnt að hafna staðalmyndum
Nichole vék þar á eftir í máli sínu að hugtakinu menningarnæmi. „Menningarnæmi er hegðun, viðhorf og stefna sem gerir okkur kleift að lifa og vinna saman á skilvirkan hátt í fjölbreyttum aðstæðum. Mikilvægt er fyrir okkur að muna að menningarnæmi er þroskaferli, við erum alltaf að læra eins og með allt sem við gerum. Við lærum að vinna með okkar eigin viðhorf og við lærum að skilja það sem er í umhverfi sem hefur áhrif á okkur, sérstaklega þau okkar sem vinnum með börnum og ungmennum.“
Það eru margar leiðir til að ná menningarnæmi, samkvæmt Nichole. Hún sagði að það fæli meðal annars í sér að fjarlægjast þjóðernishyggju, vera meðvituð um ólíkar leiðir og gera sér grein fyrir eigin fordómum. „Að fatta að það er allt í lagi að vera öðruvísi og að fjölbreytileiki geti bætt líf okkar.“ Hún sagði jafnframt það ekki vera síður mikilvægt að huga að sjálfsspeglun en „það er eitthvað sem við þurfum að vinna með frá degi til dags þegar við störfum með menningarnæmi og fjölbreytta hópa. Við verðum að muna að styrkleiki samfélagsins felst í fjölbreytni. Að við eigum samskipti án fordóma og virðing er borin fyrir öllum og að við vinnum sífellt með eigin viðhorf.“
Nichole benti á að brýnt væri að hafna staðalmyndum um fólk af erlendum uppruna. Börn yrðu fyrir ýmiss konar áreiti alla daga og væru undir þrýstingi að passa inn í einhverja ákveðna ímynd. Vitnaði hún í Angelu Davis í þessu samhengi sem sagði að ekki væri nóg að vera fordómalaus, vinna þyrfti gagngert gegn þeim. „Við megum ekki gleyma því að fordómar felast líka í því að mæta í starf með börnum og ungmennum og draga úr getu þeirra með því að ætla að bjarga þeim. „Greyið flóttabarnið, ég þarf að bjarga því. Greyið barnið með hækju, ég þarf að bjarga því.“ Við þurfum að draga úr slíkum staðalmyndum,“ impraði hún á.
Að lokum sagði Nichole að því sterkari sem böndin væru í kringum börn, þegar þau eru að alast upp, því sterkari yrðu þessir einstaklingar. Fólk í tómstunda- og íþróttastarfi væru lykill að samfélagi og áhrifavaldar í lífi barna og ungmenna – og brú þeirra inn í samfélagið.