Svanhildur er sjálfboðaliði ársins 2023

Tómas Torfason formaður Almannaheilla, færir Svanhildi Ólafsdóttur viðurkenninguna sem sjálfboðaliði ársins 2023.

Almannaheill, samtök þriðja geirans, hafa valið Svanhildi Ólafsdóttur sem sjálfboðaliða ársins 2023. Valið var tilkynnt í tilefni af Degi sjálfboðaliðans í dag, þriðjudaginn 5. desember.

Svanhildur hefur sem formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu eflt starfsemi félagsins, sem stendur nú í miklum blóma og styður við fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Svanhildur er einnig ein af máttarstólpunum á bak við fjölskylduviðburðinn „Styrkleika Krabbameinsfélagsins“, sem haldnir hafa verið á Selfossi síðastliðin tvö ár.

Svanhildur býr yfir mikilli reynslu og þekkingu sem hún deilir fúslega með öðrum og er meðvituð um að árangur í félagsstarfi byggist á samvinnu og trausti.

Valið á sjálfboðaliða ársins er liður í að þakka þeim fjölmörgu sem leggja til tíma og orku í starfsemi félagasamtaka á ári hverju.  Svanhildur er góð fyrirmynd og öflugur fulltrúi úr þeirra hópi.

5. desember er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga daginn öllum sjálfboðaliðum.