Skráningar á Almannaheillaskrá og Almannaheillafélagaskrá

Með breytingum á skattalögum og setningu laga um félög til almannaheilla seint á síðasta ári voru opnaðar tvær skrár fyrir almannaheillasamtök:

Almannaheillaskrá – yfir þau samtök sem njóta sérstakra skattalegra ívilnana.

Almannaheillafélagaskrá – yfir þau félög sem skráð eru undir lög um félög til almannaheilla frá 2021.

Almannaheillaskrá

Um áramótin höfðu 216 samtök verið skráð á almannaheillaskrá Skattsins. Skráning á almannaheillaskrá tryggir samtökum undanþágu frá fjármagnstekjuskatti, stimpilgjöldum og fleiru; mikilvægast fyrir samtökin er þó að skráning veitir styrktraraðilum þeirra, einstaklingum og fyrirtækjum, afslátt af eigin skattgreiðslum.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum gekk samtökum á almannaheillaskrá almennt vel að skila gögnum um styrki. Nokkur dæmi voru um að samtök skiluðu upplýsingum um gefendur of seint en fresturinn var til 20. janúar; framteljendur áttu þá að geta breytt frádráttarliðum handvirkt, ef gjafir þeirra til skráðra samtaka námu samtals 10 þús. kr. eða meiru.

Almannaheill hafa borist nokkrar ábendingar um að framlög hafi ekki skilað sér með réttum hætti á framtöl einstaklinga; þessum ábendingum hefur verið komið áfram til Skattsins og lagt til að sérstök athugun verði gerð á þessu atriði áður en álagning fer fram. Í svari Skattsins kom fram að fjölmargar samanburðarkeyrslur og leiðréttingar væru gerðar undir lok álagningavinnslu.

Samkvæmt upplýsingum Skattsins má færa beina styrki og gjafir án gagngjalds til frádráttar á móti skattskyldum tekjum. Ekki er hægt að telja þar með félagsgjöld og kaup á happdrættismiðum.

Samkvæmt upplýsingum Skattsins voru ekki mörg dæmi um ágreining við skráningu samtaka á almannaheillaskrá. Þó kom fram að Skatturinn hefði talið samþykktir sumra almannaheillasamtaka vera „ónákvæmar m.t.t. markmiða og ákvæða um meðferð eigna við slit þ.e. hafa ekki borið með sér starfsemi eða úthlutun í samræmi við 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. tskl. “

Ástæða er til að vekja athygli á því að skráningu á almannaheillaskrá þurfa samtök að endurnýja árlega, fyrst fyrir 15. febrúar 2023.

Almannaheillafélagaskrá

Einungis örfá samtök höfðu skráð sig undir lög um félög til almannaheilla, á almannaheilla-félagaskrá. Gera má ráð fyrir að félagasamtök haf þurft lengri tíma en liðinn er frá gildistöku laganna til að undirbúa skráningu; þau þurfa að taka ákvörðun um skráningu á aðalfundum sínum og gera um leið breytingar á samþykktum sínum þar sem vísað er í nýju lögin

Skráning á almannaheillafélagaskrá þarf þó ekki að vera flókin aðgerð. Í 32. gr. laga um félög til almannaheilla segir: „Almenn félagasamtök sem skráð eru í fyrirtækjaskrá geta að uppfylltum skilyrðum laga þessara farið fram á að samtökin verði skráð í almannaheillafélagaskrá. Skal félagið þá skila inn nýjum samþykktum, tilkynningu um stjórn, varastjórn og aðra þá sem geta skuldbundið félagið, auk takmarkana á þeim rétti ef einhverjar eru. Einnig skal tilkynna um endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn eða trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna.“ Þannig breyting á skráningu er gerð gegn 2 þús. kr. gjaldi.

Sé um nýtt félag að ræða, sem ekki hefur verið skráð í fyrirtækjaskrá, þarf að leggja fram ítarlegri gögn, svo sem stofngögn. Fyrir slíka skráningu er gjaldið 30 þús. kr.

Rétt er að vekja athygli á því að Skatturinn túlkar skoðunarmenn reikninga úr hópi félagsmanna sem „trúnaðarmenn“ samkvæmt nýju lögunum (endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki og skoðunarmenn séu því utanaðkomandi aðilar). Því er öruggara fyrir félagasamtök að breyta þessari hugtakanotkun í samþykktum sínum.

Nokkur atriði í leiðbeiningum Skattsins á vefsíðu geta misskilist. Best er að fylgja texta laganna, en engin reglugerð hefur verið gefin út með lögunum. Skatturinn hefur m.a. birt á vefsíðu sinni „Sýnishorn af samþykktum fyrir félag til almannaheilla“ þar sem rætt er m.a. um reikningsár félags, um kjörtímabil stjórnarmanna og fleiri atriði, en samkvæmt upplýsingum starfsmanna Skattsins er hér aðeins um sýnishorn að ræða sem ekki beri að líta á sem ófrávíkjanlega viðmiðun.

Í lagatextanum er ekki tilgreint í hvaða mánuði reikningsári félags skuli ljúka; þá er ekki tiltekið að stjórnarmenn séu allir kosnir til eins árs eins og sýnishornið gefur til kynna – stjórnarmenn geta því áfram verið kosnir á mismunandi tíma til lengri tíma en eins árs, líkt og tíðkast hjá mörgum félagasamtökum.

Sjá einnig: Skráning á Almannaheillafélagaskrá og Almannaheillaskrá – Almannaheill