Tíundi hádegisfundur Almannaheilla og Vaxandi í vetur
Á rafrænum hádegisfundi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun við Háskóla Íslands verður umfjöllunarefnið; Samningar í þriðja geiranum – skipulögð framtíð.
Þóra Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags, mun fjalla um gerð þjónustusamninga hjá almannaheillasamtökum. Þóra hefur víðtæka reynslu í þriðja geiranum en starfsemi þriðja geirans er án hagnaðarvonar. Hún hefur einnig samanburð og reynslu af stjórnun hjá einkafyrirtækjum sem og opinberum aðilum. Hún situr og hefur setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana og stýrt mörgum þeirra sem stjórnarformaður.
Síðastliðin 20 ár hefur Þóra verið framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags sem stofnað var 1958 af foreldrum barna með þroskaskerðingar er vildu breyta stofnanahugsun í þjónustu við fatlað fólk í einstaklingsmiðaðan stuðning með mannréttindi að leiðarljósi. Félagið starfar enn á þessum forsendum.
Þóra er með MBA í stjórnun frá HÍ og UD í Iowa USA. Það nám byggði hún á grunni rekstrarstjórnunarnáms frá EHÍ og viðskiptanáms í markaðsfræði og stjórnun frá HÍ. Hún lauk B.S. grunnnámi við HÍ í landfræði með jarðfræði sem aukagrein.
Víðtæk og fjölbreytt reynsla Þóru úr íslensku viðskiptalífi hefur reynst vel í hinum ýmsu störfum, m.a. sem fjármálastjóri MH, markaðsstjóri Landmælinga Íslands, framkvæmdastjóri saltfiskverkunar Útvers, rekstrarstjóri líftæknifyrirtækisins UVS, setið í verkefnisstjórnum nokkurra þróunar- og uppbyggingarverkefna ásamt því að vera alin upp í sveit á Vestfjörðum og unnið í fiskvinnslu.
Viðburður fer fram á Zoom. Frekari upplýsingar á Facebook.