Í sal Þjóðminjasafnsins í gær var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing nýsköpunarráðherra, Háskóla Íslands og Almannaheilla. Með þátttöku nýsköpunarráðherra verður til samstarf háskólans, stjórnvalda og þriðja geirans. Á grunni viljayfirlýsingarinnar verður unnið að því að skapa þriðja geiranum aukna möguleika á að starfa að samfélagslegum umbótum.
Samfélagsleg nýsköpun tengist hinum svokallaða þriðja geira eða félagshagkerfinu en það er í raun það starf sem hvorki heyrir til hins opinbera né einkageirans. Hér eru á ferðinni félagasamtök að stærstum hluta en í sumum tilvikum sjálfseignastofnanir, samvinnufélög og jafnvel hlutafélög. Það sem einkennir þennan rekstur er að ekki er sóst eftir hagnaði, félagsleg gildi eru höfð að leiðarljósi og verkefni eru unnin að einhverju leyti í sjálfboðavinnu. Með samfélagslegri nýsköpun eða „social innovation“ er átt við nýjar eða breyttar leiðir til að mæta þörfum samfélagsins með framlagi notenda, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila.
Fyrir hönd Háskóla Íslands mun Vaxandi – Miðstöð um samfélagslega nýsköpun vinna að þessum verkefnum í samvinnu Almannaheill og stjórnvöld. Miðstöðin, sem hét áður Fræðasetur þriðja geirans innan Háskóla Íslands, starfar undir Félagsvísindasviði og var stofnað 2010 að frumkvæði Ómars og Steinunnar Hrafnsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Nú er ætlunin að leggja aukna áherslu á félagslega frumkvöðlastarfsemi og samfélagslega nýsköpun.