Nýsamþykkt lög fela í sér hvetjandi skattaívilnanir til stuðnings við almannaheillastarfsemi og lækkun á skattaálögum almannaheillasamtaka.
Almannaheill fagna breytingunum sem stóru skrefi í átt að sambærilegu skattaumhverfi almannaheillasamtaka hér á landi og í helstu samanburðarlöndum Íslands; samtökin beina því til almannaheillasamtaka í landinu að kynna sér breytingarnar til hlítar og nýta sér alla þá möguleika sem felast í nýju lögunum. Breytingarnar efla ótvírætt möguleika samtaka sem vinna að góðum málefnum á að fjármagna starfsemi sína.
Með lögunum, sem taka gildi 1. nóvember 2021, er einstaklingum gert kleift að draga frá skattskyldum tekjum sínum allt að 350 þúsund krónur á ári vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem vinna að almannaheillum. Undir almannaheillastarfsemi fellur ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, björgunarsveitir og neytenda- og forvarnarstarfsemi. Upplýsingar um framlög eru forskráðar á skattframtal einstaklings ef móttakandi framlags er skráður í almannaheilllaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins.
Heimild fyrir frádrætti af tekjum af atvinnurekstri er einnig aukin en nú mega atvinnurekstaraðilar draga allt að 1,5% af skattskyldum tekjum vegna framlaga til almannaheillasamtaka.
Með lögunum er einnig dregið úr skattaálögum almannaheillasamtaka, t.a.m. vegna fjármagnstekjuskatts og virðisaukaskatts af vinnu við endurbætur húsnæðis. Sjá nánari útfærslu í frumvarpinu og greinargerð þess. Einnig má lesa skýrslu starfshóps starfshóps um lækkun á skattaálögum almannaheillasamtaka.
“Bætt umhverfi almannaheillastarfsemi hefur verið mér hugleikið um árabil. Það er því gríðarlega ánægjulegt að frumvarpið sé orðið að lögum, en málið hlaut afgerandi stuðning í þinginu. Með lögunum breikkum við tekjustofn almannaheillafélaga verulega og aukum á sama tíma möguleika fólks til að styðja við félög að eigin vali, án milligöngu ríkisins” (Bjarni Beneditktsson, fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssonar, tekið af vef Stjórnarráðsins).