- 8. fundur stjórnar Samtakanna almannaheilla, haldinn miðvikudaginn 19. mars 2009, kl. 8.30, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.
Mætt: Björgólfur Thorsteinsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Kristinn H. Einarsson og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
- 1. Kristinn gerði grein fyrir reikningum sem verið er að senda út til aðildarfélaga vegna aðildargjalda 2009. Ljóst er að samtökin fá aðrar tekjur af auglýsingu sem seld hefur verið til SPRON á vefsíðu samtakanna, almannaheill.is.
- 2. Formaður kynnti umsókn Hjartaverndar um aðild að samtökunum. Var hún samþykkt einróma. CP-félagið telur sig hins vegar ekki geta greitt 25.000,00 kr aðildargjald þar sem félagið er fámennt og félítið. Rætt um hugsanlega áheyrnar- eða aukaaðild smærri félaga að Almannaheillum en ákveðið að bíða aðalfundar með ákvörðun.
- 3. Nefnd um athugun á lögum um félagasamtök hefur ekki enn tekið til starfa. Formaður mun athuga með starf nefndarinnar hjá félagsmálaráðuneytinu. Nokkur nöfn lögfræðinga sem hægt væri að fá til samráðs vegna þessa starfs voru nefnd.
- 4. Rætt um möguleika samtakanna á að ráða fólk til starfa. Ákveðið að athuga hjá Vinnumálastofnun með samning um að ráða atvinnulausa til starfa, m.a. til bókhaldsstarfa. Þá verður athugað þegar líður fram á vorið með ráðningu framkvæmdastjóra í hlutastarf.
- 5. Formaður ræddi um aðalfund í vor. Lagði hún til að fundurinn yrði haldinn í síðari hluta maí. Rætt um hvort halda ætti málþing í tengslum við fundinn. Nánar rætt á næsta fundi.
- 6. Fram kom að stjórnendur vefsíðunnar idealist.org hafa óskað eftir upplýsingum um samtökin. Ákveðið að setja upplýsingar á ensku inn á almannaheill.is.
Fundi slitið kl. 9.50. Næsti fundur verður haldinn 16. apríl n.k.