- 4. fundur stjórnar Samtakanna almannaheilla, haldinn mánudaginn 13. október 2008, kl. 12, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.
Mætt: Björn B. Jónsson, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Jónas Þórir Þórisson, Kristín Jónasdóttir, Kristinn Halldór Einarsson, og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
- 1. Rætt um ráðstefnu sem fyrirhugað er að halda í haust :
- a. Rætt hefur verið við Ann Armstrong, fyrirlesara við Háskólann í Reykjavík, um að tala á ráðstefnuninni. Efni hennar verður: brýnustu verkefni almannaheillasamtaka á erfiðleikatímum.
- b. Samþykkt að fara þess á leit við Jóhann Thoroddsen, sálfræðing, að hann fjalli um störf sjálfboðaliða við þær aðstæður sem hafa skapast í samfélaginu.
- c. Guðrún tók að sér að kanna hjá félagsmálaráðherra möguleika á að hún ávarpi ráðstefnuna.
- d. Ráðstefnan verður fyrst og fremst ætluð forystufólki og starfsmönnum almannaheillasamtaka. Tækifærið verður notað til að freista þess að fjölga aðildarfélögum samtakanna.
- e. Ætlunin er að hafa ráðstefnuna með smærra sniði en áður var rætt um. Hún standi í þrjá klukkutíma, frá 9-12 f.h.
- f. Ákveðið að hafa ráðstefnuna fimmtudaginn 6. nóvember.
- g. Eva tók að sér að athuga með sal í Háskólanum í Reykjavík.
- h. Eva, Guðrún og Jónas G. munu setja fram nánari tillögur.
- 2. Ákveðið að stefna að fleiri opnum fundum í vetur. Verður áfram leitað samstarfs við útgefendur bókar um rekstur félagasamtaka, sem út kemur innan skamms, um fund eða ráðstefnu með erlendum fyrirlesara.
- 3. Fram kom að Landsamtökin Þroskahjálp hafa óskað eftir aðild að Almannaheill.
- 4. Rætt um heimasíðu fyrir samtökin. Kristinn og Eva tóku að sér að kanna nánar með leyfi fyrir vefumsjónarkerfi, hönnun vefsíðu og hýsingu. Fyrsta athugun bendir til að hægt sé að komast af með 150 þús. kr. í verkefnið til að byrja með.
- 5. Rætt var um hönnun á merki fyrir samtökin. Mögulegt er að nýta hugmyndir úr samkeppni um merki fyrir önnur samtök. Eva og Guðrún munu kanna það nánar.
- 6. Samþykkt var að senda fjölmiðlum ályktun frá Samtökum í tilefni af fjármálakreppunni í landinu. Þar verði minnt á hlutverk almannaheillasamtaka í glímu við áföll í samfélaginu, almannaheillasamtök hvött til dáða vegna núverandi aðstæðna og almenningur hvattur til að bjóða sig fram til sjálfboðaliðastarfa. Jónas G. gerir uppkast að ályktun, sem verður borin undir stjórnarmenn með tölvupósti.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13.30