26. fundur stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, haldinn fimmtudaginn 21. október 2010. kl. 8.30, að Skógarhlíð 8, Reykjavík.
Mætt: Guðrún Agnarsdóttir, Björgólfur Thorsteinsson, Hildur Helga Gísladóttir, Jónas Þórisson, Júlíus Aðalsteinsson og Vilmundur Gíslason og Eva Þengilsdóttir sem ritaði fundargerð.
Eftirfarandi var gert:
1. Verkefnastjóri
Að tillögu formanns var ákveðið að formaður, varaformaður og ritari geri tillögu til stjórnar um mögulega kandídata og geri starfslýsingu. Nokkur nöfn voru rædd og var ákveðið að biðja aðildarfélögin um að benda á mögulega kandídata. Er miðað við að verkefnastjórinn vinni að hagsmunamálum Almannaheilla, komi málstað samtakanna á framfæri og túlki fyrir almenningi, öðrum félögum, stjórnvöldum og fjölmiðlum. Rætt var um að kostur væri að, auk haldbærrar menntunar, hefði viðkomandi félagslegan bakgrunn, mikið frumkvæði og væri fjölmiðlavanur. Miðað er við að um verktakasamning verði að ræða og að viðkomandi sinni verkefninu til næsta vors.
2. Skýrsla nefndar félagsmálaráðherra um lög er varða félagasamtök og sjálfseignarstofnanir. Fulltrúi Almannaheilla í nefndinni skýrði frá því að skýrslan yrði lögð fyrir ráðherra á næstu tveimur vikum að því tilskildu að fundur fengist á þeim tíma með ráðherra. Rætt var um mikilvægi þess að fylgja skýrslunni vel eftir og ákveðið að halda málþing í kjölfar fyrirlagningar skýrslunnar þar sem gerð verður grein fyrir helstu þáttum hennar.
3. Yfirlit yfir tekjur sem aðildarfélög Almannaheilla fá frá opinberum aðilum og skatta og gjöld sem þau greiða. Ekki hefur enn tekist að ljúka gerð yfirlitsins þar sem einhver félög eiga enn eftir að skila inn upplýsingum. Ákveðið var að ítreka enn beiðni um skil upplýsinga. Formaður tók að sér að hafa samband við fjármálastjóra KÍ og Blindrafélagsins sem haldið hafa utan um verkefnið, en jafnframt við þau félög sem ekki hafa skilað inn upplýsingum, eða upplýsingum er áfátt frá.
4. Velferðarvaktin / sjálboðaliðamiðstöð. Ákveðið var að fara þess á leit við ritara að hann mætti fyrir hönd samtakanna á fyrirhugaðan fund Velferðarvaktarinnar. Á þeim vettvangi hefur verið rætt um hugmyndir um stofnun sjálfboðaliðamiðstöðvar og mögulega aðkomu Almannaheilla að rekstri slíkarar miðstöðvar. Áður hefur verið rætt um málið á stjórnarfundi og eins og þá var almennur áhugi fyrir verkefninu, en menn voru jafnframt sammála um að forsenda þess að slík miðstöð verði sett á fót og rekin af Almannaheillum sé að fjármagn fylgi verkefninu frá hinu opinbera.
5. Dagur sjálfboðaliðans / námskeiðahald. Rætt var um dag sjálboðaliðans og mögulega viðburði á næsta ári. Í því samhengi var rætt um námskeiðahald og hvort unnt væri að semja við fræðsluaðila um að koma og halda námskeið fyrir aðildarsamtökin frítt eða með umtalsverðum afslætti. Opni háskólinn í HR veitir stjórnum og starfsfólki aðildarfélaga Almannaheilla 20% afslátt af námskeiðum og var ákveðið var að kanna hvort unnt væri að fá afslátt af námskeiðum sem haldin eru á vegum Endurmenntunar HÍ, t.d. af námskeiði sem framundan er um markaðsmál.
Fleira var ekki gert. Fundi slitið kl. 10.00.