VEL HEPPNAÐ HÁDEGISMÁLÞING UM SIÐAREGLUR OG SIÐLEGA STARFSHÆTTI

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra sagði í ávarpi sínu á hádegismálstofu Háskólans í Reykjavík og Almannaheilla, ÞRIÐJI GEIRINN: SIÐLEGIR STARFSHÆTTIR OG ÁBYRGÐ STJÓRNA ALMANNAHEILLASAMTAKA, að mikilvægt væri að auka traust í samfélaginu og að setning siðareglna gæti verið lóð á þær vogarskálar. Ragna óskaði Almannaheillum jafnframt velgengni í framtíðinni og kvað mikilvægt að hafa öflug regnhlífarsamtök í þriðja geiranum sem ríkisvaldið getur leitað til og starfað með á tímum aukins samráðs. 

Auk ráðherrans fluttu erindi Stefán Einar Stefánsson, siðfræðingur við lagadeild HR, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs HR, og Eva Þengilsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar HR og varaformaður Almannaheilla.

Fram kom í erindi Stefáns Einars, Siðlegir starfshættir og setning siðareglna, að setning siðareglna væri ekki ávísun á að frjáls félagasamtök gætu ekki valdið skaða heldur væru slíkar reglur fyrst og fremst viðleitni til að tryggja að samtökin risu undir mikilvægu hlutverki sínu.

Í erindi sínu, Ábyrgð stjórnenda og stjórnarmanna í almannaheillasamtökum, sagði Þorkell meðal annars að ábyrgð stjórna almannaheillasamtaka væri síst minni en hlutafélaga því verið væri að fjalla um mikilvæg samfélagsleg verkefni og ráðstafa fjármunum sem stjórninni og stjórnendum væri treyst fyrir. 

Eva fór að síðustu yfir drög að siðareglum Almannaheilla, tilgang slíkra reglna og ábyrgð gagnvart almenningi fjölmiðlum og samfélagi.

Þátttaka á málstofunni var góð og umræður í lokin nokkrar. Guðrún Agnarsdóttir, formaður Almannaheilla, var fundarstjóri.

Sjá erindi hér fyrir neðan:

Ragna Árnadóttir ráðherra – Ávarp

Stefán Einar Stefánsson – Siðlegir starfshættir og setning siðareglna

Þorkell Sigurlaugsson – Ábyrgð stjórnenda og stjórnarmanna í almannaheillasamtökum

Eva Þengilsdóttir – Drög að siðareglum Almannaheilla

Skildu eftir svar