Almannaheillafélög eru heilbrigðismerki á samfélagið

Aðalfundur Almannaheilla 2018 fór fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins þann 16. maí kl. 16.00. Auk venjulegra aðalfundastarfa ávarpaði hæstvirtur forætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fundinn auk þess sem Tinna Björk Gunnarsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Fortis, hélt fræðsluerindi um ný persónuverndarlög og almannaheillafélög.

 

Í ávarpi sínu talaði Katrín forsætisráðherra um mikilvægi almannaheillafélaga. Hún sagðist sjálf vera félagi í nokkrum aðildarfélögum Almannaheilla. Hún benti á að starfssemi almannaheillasamtaka sé mikilvægt heilbrigðismerki á samfélagið. Þau starfi þvert á pólitískar línur, séu opin og lýðræðisleg og sinni því hlutverki að koma sjónarmiðum almennings á framfæri við stjórnvöld. Þau séu mikilvægur samstarfsaðili stjórnvalda í öllu samráði og allri stefnumótun. Forsætisráðherra sagði hlutverk almannaheillafélaga einnig vera fræðsla og efling á lýðræðislegri umræðu í samfélaginu með því að fræða fólk og standa fyrir vitundarvakningu um málefni sem skipta okkur máli. Þannig stuðla félögin að því að draga úr fordómum, auka þekkingu og skilning. Almannaheillafélög brúa brýr á milli ólíkra hópa í samfélaginu og það hlutverk verður æ mikilvægara eftir því sem samfélag okkar hættir að vera eins einsleitt og það var áður, og jafnvel enn mikilvægara ef horft er til þess að samfélagsmiðlar velja velja gjarnan upplýsingar fyrir fólk.

 

Katrín sagði að við tökum gjarnan hinu góða í samfélaginu sem gefnu og það á við um allt það góða starf sem unnið er í aðildarfélögum Almannaheilla. Við látum oft ekki í okkur heyra fyrr en eitthvað fer úrskeiðis. Það er mikilvægt að stjórnvöld viðurkenni hið góða starf sem hér er unnið og að við tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut. Nú á tíu ára afmælisári Almannaheilla þakka ég fyrir ykkar góða starf hingað til og hlakka til að eiga gott samstarf við ykkur áfram.

 

Formaður Almannaheilla, Ketill Berg Magnússon, flutti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár. Uppúr standa stór verkefni eins og samstarf við Opna háskólann um nýja fræðslulínu fyrir stjórnendur í þriðja geiranum, Fundur fólksins og baráttan um að koma frumvarpinu um almannaheillafélög í gegn.

 

Áfram verður verkefnið að efla veg þriðja geirans á Íslandi og berjast fyrir hagsælla starfsumhverfi fyrir almannaheillafélög. Vinna þarf að hagfeldara skattaumhverfi fyrir almannaheillasamtök. Það er alls ekki sanngjarnt að sjálboðasamtök sem sinna almannaþjónustu sem ríkið myndi ellegar þurfa að sjá um, verði að greiða þá háu skatta og gjöld sem á þau eru lögð. Það er ekki nóg með að ríkið losni við þann kostnað sem af þjónustu almannaheillasamtaka til sinna notenda hlýst heldur fær ríkið skatttekur af almannaheillafélögum. Ríkið græðir því tvöfalt af almannaheillafélögum í dag. Við skorum á yfirvöld um að bæta skattaumhverfi almannaheillafélaga til muna. Það mun bæta rekstraskilyrði almannaheillafélaga og þar með þjónustuna sem sem félögin veita.

 

Í stjórn Almannaheilla voru eftirtalin kosin:

Ketill B. Magnússon, formaður (Heimili og skóli)
Jónas Guðmundsson (Neytendasamtökin)
Guðlaug B. Guðjónsdóttir (Krabbameinsfélag Íslands)
Ragnheiður Sigurðardóttir (UMFÍ)

Auk þess sem eftirtaldir sitja áfram sitt seinna ár:
Steinunn Hrafnsdóttir (Fræðasetur þriðja geirans HÍ)
Þóra Þórarinsdóttir (Þroskahjálp)
Þröstur Emilsson (ADHD samtökin)

Varastjórn (kjörin til eins árs)
Árni Einarsson (FRÆ)
Ásdís Eva Hannesdóttir (Norræna félagið)
Erna Arngrímsdóttir (ÖBÍ)
Erna Reynisdóttir (Barnaheill)
Guðrún Helga Bjarnadóttir (Blátt áfram)
Hildur Helga Gísladóttir (Kvenréttindafélag Íslands)
Vilhjálmur Bjarnason (Samtök sparifjáreigenda)

 

Að loknum aðalfundarstörfum hélt Tinna Björk Gunnarsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Fortis, fræðsluerindi um ný persónuverndarlög og almannaheillafélög.

 

Hún sagði mörg kjarnaatriða fyrri persónuverndarlaga áfram verða í gildi. Breytingarnar núna eru tilkomnar vegna stóraukinnar alþjóða- og tæknivæðingar. Tilgangur nýju laganna er “að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga”. Lögin eiga jafnt við almannaheillafélög og aðra.

 

Persónuupplýsingar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Mikilvæg breyting er að persónuupplýsingar verða nú bæði á ábyrgð ábyrgðaraðila sem notar upplýsingarnar (t.d. almannaheillafélög) og vinnsluaðila sem útvegar þekkingu eða kerfi til að vinna upplýsingarnar fyrir ábyrgðaraðila (t.d. hugbúnaðarfyrirtæki eða annar þjónustuaðili).

 

Gerð er krafa til ábyrgðaraðila um að koma á skipulagi og ferli um vinnslu, varðveislu og eyðingu persónuupplýsinga. Almannaheillafélög þurfa því að greina vel hvernig þau fara með persónuupplýsingar, móta verkferla, gera vinnsluskrá, setja persónuverndarstefnu, eftir atvikum ráða persónuverndarfulltrúa og uppfæra samninga við vinnsluaðila.

 

Mikilvægt er að almannaheillafélög afli sér þekkingar til að geta innleitt nýju persónuverndarlögin. Góðar uppýsingar er að finna á vef Persónuverndar: www.personuvernd.is og einnig veita lögfræðingar aðstoð við að laga starfsemina þar að.

 

Hér má lesa Almannaheill aðalfundur fundargerð 16.5.2018 og Almannaheill Skýrsla stjórnar 16.5.2018.