Upplýsandi málþing um frumvarp

Almannaheill_Malthing_Hrafn

Á málþingi Almannaheilla miðvikudaginn 18. nóvember var rætt um drög að frumvarpi um almannaheillafélög sem iðnaðar- og viðskiptaráðhera, Ragnheiður Elín Árnadóttir kynnti fyrr á þessu ári.

Markmiðið á að vera bætt rekstrarumhverfi og aukið traust í garð almannaheillafélaga
Ketill Berg Magnússon, formaður setti málþingið og sagði helsta markmið Almannaheilla vera að bæta rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka og stuðla að hagsælu lagaumhverfi þeim til handa. Málþing þetta væri liður í því starfi. Þrír framsögumenn voru á dagskrá málþingsins. Fyrst í pontu var félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir. Hún varpaði ljósi á afstöðu ríkisstjórnarinnar, sem telur mikilvægt, og til bóta fyrir almannaheillasamtök, að settur sé skýr lagarammi um starfsemi slíkra samtaka (erindi Eyglóar: Ráðherra_Eygló_Almannaheillasamtök og lagasetning).

Lögin hafa verið lengi í undirbúningi
Næstur tók til máls Hrafn Bragason, fyrrum hæstaréttadómari og einn af höfundum frumvarpsins. Hann lýsti aðdragandanum og fór yfir ýmis rök fyrir því að sett verði sérstök lög um almannheillasamtök (erindi Hrafns: Hrafn_Um Undirbúning löggjafar).

Mikilvægt að lögin séu ekki of íþyngjandi
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Blindrafélagsins og varaformaður ÖBÍ kom síðastur í pontu. Hann tók það fram að hann væri ekki að tala fyrir hönd allra félagsmanna í þeim félögum þar sem hann er í forsvari, heldur miklu frekar vildi hann lýsa því hvernig hann upplifði það sem fram er sett í frumvarpsdrögunum, út frá sinni reynslu af störfum í almannaheillasamtökum. Hann sagðist hlyntur hugmyndinni um skýran lagaramma um almannaheillasamtök en honum finnst enn mörgum spurningum ósvarað um áhrif slíkra laga á félögin.

Góðar umræður
Ólafur Proppé, fyrrverandi formaður Almannaheilla, var fundarstjóri og stýrði umræðum að loknum framsögum. Margir tóku til máls, og hafði Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS óskað eftir að fá að leggja orð í belg. Guðmundur sagðist sammála markmiðum frumvarpsins en lýsti efasemdum um að þörf væri á sérstakri lagasetningu fyrir almannaheillasamtök. Hægt væri að ná sama markmiði með því að koma á skrá um almannaheillasamtök. Fleiri fyrirspurnir komu fram og svöruðu frummælendur ásamt formanni Almannaheilla þeim úr pallborði. Ráðherra hafði þó ekki tök á að vera svo lengi á málþinginu.
Ragnheiður Haraldsdóttir, varaformaður Almannaheilla flutti að lokum samantekt og lýsti ánægju sinni með hve upplýsandi framsögurnar og umræðurnar hefðu verið. Hún lýsti afstöðu Almannaheilla og mikilvægi þess að bæta laga- og skattaumhverfi almannaheillasamtaka.

Þörf á lagaramma
Stjórn Almannaheilla telur að málþingið hefði heppnast vel og að erindin hefðu varpað frekara ljósi á afstöðu yfirvalda annars vegar og forsendur þess hvernig frumvarpið var samið hins vegar. Stjórn Almannaheilla er á þeirri skoðun að það yrði til bóta ef sett yrðu sérstök lög um almannaheillasamtök. Slík lög þurfa að gera lágmarkskröfur til almannaheillasamtaka um gagnsæi, góða stjórnarhætti og ábyrga meðferð fjármuna. Almannaheill er í megindráttum sátt við frumvarpsdrögin þó þau telji að laga megi einstök atriði þeirra.

Frumvarpið er enn í vinnslu í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Almannaheill vonar að ráðherra leggi fram frumvarpið fljólega svo það fái efnislega umræðu í nefndum. Þá verður óskað eftir umsögnum og þá geta allir sett aftur fram athugsemdir um frumvarpið.

Bætt rekstrarskilyrði almannaheillafélaga
Almannaheill telur mikilvægt að horfa á þetta í stóru samhengi. Hér er verið að leggja fram frumvarp um ramma um rekstrarskilyrði almannaheillafélaga. Mikilvæger er að hann sé skýr og sanngjarn. Ríkisstjórnin hefur gefið þau skilaboð að slíkur rammi sé forsenda þess að ræða frekari ívilnanir til handa almannaheillasamtökum. Það telur Almannheill afar brýnt að laga. Margskonar breytingar þarf að gera á skattaumhverfi almannaheillasamtaka. Þar má telja m.a.:
– Hækka skattaafslátt til þeirra sem gefa fé til almannaheillasamtaka svo hann verði sambærilegur við það besta sem gerist í löndum sem við berum okkur saman við (bæði framlög fyrirtækja og einstaklinga).
– Fella niður erfðafjárskatt þegar almannaheillafélög eru arfleidd.
– Fella niður VSK af aðföngum sem almannaheillasamtök þurfa að kaupa til að geta sinnt þjónustu sinn.

Hér er um að ræða verulega hagsmunamál fyrir almannaheillafélög í landinu, sem að auki er mikið sanngirnismál. Ríkið er í mörgum tilfellum að skattleggja framlög til verkefna sem almannaheillafélög eru að vinna en myndu annars lenda á ríkinu.