Skýrsla stjórnar Almannaheilla 2010

Skýrsla stjórnar Almannaheilla, samtaka þriðja geirans fyrir starfsárið 19. maí 2009 til 19. maí 2010

Almannaheill, samtök þriðja geirans, voru stofnuð 26. júní 2008 eftir talsvert undirbúningsstarf og hafa því starfað í tæp tvö ár. Aðildarfélög eru nítján, Aðstandendafélag aldraðra, Blindrafélagið samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, Bandalag íslenskra skáta, CP félagið, Geðhjálp, Gróður fyrir fólk í landi Ingólfs, Heimili og skóli landssamtök foreldra, HjartaverndHjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Landvernd, Neytendasamtökin, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Umhyggja, Ungmennafélag Íslands, Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands. Í aðalstjórn störfuðu á sl. starfsári : Björgólfur Thorsteinsson, Einar Haraldsson, Eva Þengilsdóttir varaformaður, Guðrún Agnarsdóttir formaður, Jónas Guðmundsson ritari, Jónas Þórir Þórisson og Kristinn Halldór Einarsson gjaldkeri. Í varastjórn voru Björk Einisdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Júlíus Aðalsteinsson, Kristín Jónasdóttir, Stefán Halldórsson, Sveinn Magnússon og Vilmundur Gíslason.

Í stofnsamningi samtakanna var áhersla lögð á þrjú megin markmið á næstu þremur árum og er stjórn ætlað að vinna að þeim:

a)     Skattalögum verði breytt á þann hátt að almannaheillafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattsstofni. Ennfremur verði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.

b)    Sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.

c)      Ímynd félaga sem starfa í almannaþágu verði efld til muna meðal almennings.

Stjórnin hefur einkum einbeitt sér að þessum atriðum á starfsárinu. Aðalfundur var haldinn 19. maí 2009, í húsi Krabbameinsfélagsins, og sátu hann tuttugu manns og áttu þrettán aðildarfélög fulltrúa á fundinum. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum flutti Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra ávarp. Talsverðar umræður urðu á fundinum. Samþykkt var tillaga um nafnbreytingu á samtökunum á aðalfundi úr Samtök um Almannaheill í Almannaheill, samtök þriðja geirans, og hefur nýtt heiti verið skráð hjá Ríkisskattstjóra.

Haldnir voru tólf stjórnarfundir á starfsárinu og tvö málþing. Þeim hætti hefur verið haldið að boða bæði aðal- og varastjórn á stjórnarfundi og koma þeir sem geta. Stjórnarmenn tóku ennfremur þátt í fundum og samstarfi til að kynna starf Almannaheilla.

Starfsáætlun þróaðist á fyrstu fundum stjórnar eftir aðalfund og var einkum lögð áhersla á eftirfarandi:

1. Halda málþing um stöðu almannaheillasamtaka í kreppunni, helst fleiri en eitt.

2. Stefna saman gjaldkerum eða fjármálastjórum aðildarfélaganna til að ræða stöðu aðildarfélaganna á krepputímum. Þetta markmið þróaðist svo í að meta stöðu aðildarfélaganna gagnvart ríkinu hvað varðar framlög þess til félaganna og hins vegar framlög aðildarfélaganna til ríkisins, þegar allt er talið með. Kannað yrði sérstaklega hve mikinn virðisaukaskatt aðildarfélögin greiða.

3. Bregðast við aðgerðum stjórnvalda sem snerta starf aðildarfélaganna með ályktunum.

4. Koma fræðsluefni um félagasamtök inn á heimasíðu Almannaheilla.

5. Leggja drög að siðareglum fyrir Almannaheill sem gætu orðið fordæmi fyrir önnur félagasamtök.

6. Athuga möguleika á að halda dag félagasamtaka í samvinnu við fjölmiðla og efna til umræðu við fjölmiðlafólk um aðgang almannaheillasamtaka að fjölmiðlum.

7. Huga að ráðningu framkvæmdastjóra í hlutastarf.

Unnið hefur verið að því stöðugt að bæta heimasíðu samtakanna www.almannaheill.is.

Haldinn var áhugaverður fundur stjórnar með Gunnari E. Kvaran blaðamanni frá almannatengslafyrirtækinu Athygli um aðgengi almannaheillasamtaka að fjölmiðlum.

Ályktun um stöðu almannaheillasamtaka á tímum efnahagskreppu sem hafði verið í vinnslu frá því í júlí var send forsætis- og fjármálaráðherra 9. október og þau beðin að kynna hana í ríkisstjórn.

Rætt var við Ómar H. Kristmundsson og Steinunni Hrafnsdóttur hjá Félagsvísindadeild HÍ um samstarf um málefni almannaheillasamtaka almennt og sérstaklega um málþing um stöðu félagasamtaka í kreppunni. Málþing samtakanna og félagsráðgjafardeildar og stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands: Þriðji geirinn á tímum endurreisnar: Lýðræði, félagsauður, betra velferðarkerfi og nýsköpun þess? var svo haldið í hádegi 27. nóvember 2009 á Háskólatorgi og var mjög fjölsótt en þar komu um 100 manns. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra flutti ávarp í upphafi og bauð félagasamtökum á stefnumót á árinu 2010 í tilefni af 40 ára afmæli ráðuneytisins. Síðan flutti Dr. Steinunn Hrafnsdóttir dósent við félagsráðgjafardeild HÍ erindi um Áhrif efnahagskreppu á frjáls félagasamtök og Dr. Ómar H. Kristmundsson dósent við stjórnmálafræðideild HÍ flutti erindi undir yfirskriftinni: Hvert á hlutverk þriðja geirans að vera í endureisn samfélagsins? Þótti málþingið takast mjög vel og urðu nokkrar umræður um efni þess en margt athyglisvert kom fram í máli fyrirlesara.

Skipuð var nefnd til að vinna að siðareglum fyrir samtökin en í henni sátu Anna Ólafsdóttir, Eva Þengilsdóttir, Guðrún Snorradóttir og Þuríður Hjartardóttir. Hefur hún unnið gott starf en drög að siðareglum hafa verið kynnt fyrir aðildarfélögunum og talsverð umræða orðið um þær. Mörg aðildarfélög hafa þegar samþykkt þessi drög en orðalagsbreytingar voru gerðar á þeim nýlega sem ekki eiga að breyta miklu um efni textans. Er ætlunin að leggja þessi drög fyrir aðalfund til samþykktar.

Heilbrigðisráðherra efndi boð sitt á stefnumót við þriðja geirann, en til þess var boðað 24. mars 2010 og var boðið sent 95 félagasamtökum sem sinna verkefnum sem falla að starfssviði heilbrigðisráðuneytisins. Öllum var boðið að senda inn spurningar og tillögur og lögðu Almannaheill áherslu á hin þrjú megin markmið samtakanna.

Nefnd á vegum félagsmálaráðherra um kosti og galla þess að setja heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka hefur starfað síðan á síðasta aðalfundi og fáum við væntanlega að heyra á eftir frá formanni nefndarinnar, Ómari H. Kristmundssyni, hvernig þau mál standa en Hrafn Bragason fv. hæstaréttardómari mun hafa skilað álitsgerð um málið til nefndarinnar.

Önnur hádegismálstofa var svo haldin 7. apríl, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík í nýrri aðalbyggingu HR í Nauthólsvík, og var hún undir yfirskriftinni: Þriðji geirinn – Siðlegir starfshættir og ábyrgð stjórna almannaheillasamtaka. Þar flutti Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra ávarp en síðan flutti Stefán Einar Stefánsson siðfræðingur við lagadeild HR erindi: Siðlegir starfshættir og setning siðareglna og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs HR flutti erindi: Ábyrgð stjórnenda og stjórnarmanna í almannaheillasamtökum. Eva Þengilsdóttir varaformaður Almannaheilla sem vann í nefnd um siðareglur fyrir samtökin kynnti síðan Drög að siðareglum Almannaheilla. Málstofan var vel sótt og talsverðar umræður urðu um ágæt og áhugaverð erindi og nokkrar tillögur komu til breytinga á siðareglunum sem nú hefur verið tekið tillit til.

Haldinn var fundur með stjórn og þeim Ómari og Steinunni sem áður er getið og kynntu þau hugmynd að stofnun Miðstöðvar þriðja geirans við HÍ og vildu að Almannaheill ætti formlega aðild að henni. Var vel tekið í erindi þeirra og munum við væntanlega fá meira um þetta að heyra frá Ómari á eftir.

Sent hefur verið erindi til allra aðildarfélaga um að finna hjá sér upplýsingar um framlög ríkisins til þeirra og framlög og greiðslur félaganna eða samtakanna til ríkisins og beðið um svör fyrir lok maímánaðar.

Þau sem skipuðu uppstillingarnefnd fyrir síðasta aðalfund samþykktu góðfúslega að taka þetta hlutverk að sér aftur til að annast skipun stjórnar og endurskoðenda og var Björn B. Jónsson frá UMFÍ skipaður formaður og Kristín Siggeirsdóttir frá Hjartavernd og Reynir Ingibjartsson frá Aðstandendafélagi aldraðra með honum.

Það er mat mitt að Almannaheill hafi miðað vel áfram á öðru starfsári samtakanna. Við höfum komið flestu í verk af því sem til stóð þó að eitthvað standi út af. Fjármálakreppan setti mark sitt á starf okkar eins og annarra og fékk okkur til að hika við ákvarðanir eins og þá að ráða starfsmann. Áfram er þó enginn vafi í mínum huga að mikil þörf er á samstarfsvettvangi eins og samtök okkar bjóða upp á og rétt er að hvetja fleiri samtök og félög til þess að ganga til liðs við okkur þannig að hópurinn verði öflugri. Það styrkir okkur að eiga samleið og vinna saman að því sem eru sameiginleg hagsmunamál félaganna. Ég vil þakka stjórnarfólki í aðal- og varastjórn fyrir mjög gott samstarf á liðnu ári og óska Almannaheillum farsældar á komandi starfsári.

19. maí 2010                                                                                         Guðrún Agnarsdóttir

Skildu eftir svar