Frumvarp sem styrkir almannaheillafélög

 

Nú hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagt fram í Samráðsgáttina endurskoðuð drög að frumvarpi um almannaheillafélög. Ráðherra hefur undanfarnar vikur átt samráð við Almannaheill um endurskoðunina þar sem sjónarmiðum almannaheillafélaga hefur verið haldið fram. Almannaheill fagna slíku frumvarpi um lagalega umgjörð um þeirra félagaform. Nauðsynlegt er að samþykkja slík lög sem fyrst.

 

Efnislega fjallar frumvarpið um skilyrði þess að félag geti valið að skrá sig sérstaklega sem félag til almannaheilla og fá þannig endinguna .fta í fyrirtækjaskrá. Sú skráning hentar vel félögum sem eru með umtalsverða starfsemi og/eða þiggja fjármagn til starfsemi sinnar. Í frumvarpinu felast hagnýtar leiðbeiningar um stofnun og rekstur almannaheillafélaga þar sem vandaðir stjórnarhættir og fjármál eru höfð að leiðarljósi. Fyrir lítil félagasamtök sem ekki höndla með fjármuni þurfa þessi lög ekki hafa áhrif á annan hátt en að vera fyrirmynd um góða stjórnarhætti og vandaða meðferð fjármuna.

 

Við sem styðjum félagasamtök til góðra verka viljum geta treyst þeim. Við viljum að fólkið eða málefnið sem félagasamtökin starfa fyrir njóti faglegrar hjálpar, að félagasamtökin taki vandaðar ákvarðanir, fari vel með fjármagn og komi í veg fyrir hagsmunaárekstra. Við viljum ekki að fjármálaóreiða eða eiginhagsmunapot i félagasamtökunum skaði málstaðinn sem við styðjum. Því miður er alltaf hætta á að það gerist eins og annars staðar þar sem peningar og hagsmunir eru í húfi.

 

Almannaheill eru landssamtök félagasamtaka og sjálfseignastofnana sem vinna að málefnum til almannaheilla. Aðildarfélögin eru mörg af stærstu almannaheillasamtökum landsins, með tugþúsunda félaga. Þessi félög hafa allt frá árinu 2008 kallað eftir því að starfsumhverfi almannaheillasamtaka verði styrkt og þau fái ívilnanir í samræmi við þann ávinning sem þau skapa samfélaginu og yfirvöldum.

 

Almannaheillafélögin styðja umrætt lagafrumvarp og þykir eðlilegt að gera þær lágmarkskröfur um fagmennsku og lýðræðisleg vinnubrögð sem þar er kveðið á um. Það skaðar nefnilega öll almannaheillafélög þegar óvönduð vinnubrögð eða óreiða koma upp í einum samtökum. Fagleg félög hafa ekkert að fela og vilja geta sýnt fram á það svart á hvítu.

 

Stjórn Almamannaheilla hvetur stjórnir almannaheillafélaga að kynna sér drögin að frumvarpinu á Samráðsgáttinni og veita því jákvæða umsögn. Það mun tryggja málinu brautargengi í meðferð Alþingis þegar ráðherra leggur frumvarpið fram.

Ketill Berg Magnússon

Formaður Almannaheilla