20. fundur stjórnar Almannaheilla. samtaka þriðja geirans, haldinn miðvikudaginn 21. apríl 2010. Kl, 8.30, í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð 8, Reykjavík.
Mætt: Guðrún Agnarsdóttir, Björgólfur Thorsteinsson, Einar Haraldsson, Eva Þengilsdóttir, Jónas Þórir Þórisson, Hildur Helga Gísladóttir, Kristinn H. Einarsson og Jónas Guðmundsson, sem ritaði fundargerð. Auk þess sátu fundinn Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir frá Heimili og skóla, Ómar Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir frá Háskóla Íslands.
Þetta var gert:
- 1. Ómar og Steinunn kynntu hugmynd að stofnun Miðstöðvar þriðja geirans við Háskóla Íslands. Samkvæmt drögum að samþykktum er meginhlutverk miðstöðvarinnar að „efla rannsóknir, þróunarverkefni og fræðslu á sviði þriðja geirans og almennra félaga sem starfa án hagnaðarvonar”. Fóru þau fram á að Almannaheill ættu formlega aðild að miðstöðinni og tilnefndu einn fulltrúa í ráðgjafahóp. Var tekið vel í erindi þeirra.
- 2. Steinunn kynnti eitt verkefni sem ætlunin er að vinna að, en það snýst um að flokka nánar, þau félagasamtök sem skráð hafa verið í landinu, samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, og eftir eðli þeirra og virkni. Verður óskað eftir samvinnu við Hagstofu Íslands og Ríkisskattstjóra um verkefnið.
- 3. Rætt um aðgang íslenskra almannaheillasamtaka að umfjöllun í fjölmiðlun og hvaða skref Almannaheill gætu stigið til þess að greiða fyrir þessum aðgangi.
- 4. Rætt var um starf nefndar félags- og tryggingamálaráðherra um endurskoðun á lögum sem varða félagasamtök. Ómar, sem er formaður nefndarinnar, sagði að nefndin myndi skila niðurstöðum sínum á næstu vikum. Nefnt var hvort hægt yrði að ræða um hugmyndir nefndarinnar á aðalfundi Almannaheilla í maí, en til þess þarf að fá leyfi ráðherra þar sem nefndarskýrslan verður þá væntanlega ekki komin fram.
- 5. Rætt um dagsetningu aðalfundar Almannaheilla. Var ákveðið að gera tillögu um 19. maí.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:15